Verkalýðs og sjómannafélag Sandgerðis er 85 ára í dag. Félagið var stofnað 27. október 1929. Kaffi og meðlæti verður í boði á skrifstofu félagsins.
Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis er elsta starfandi stéttarfélag á Suðurnesjum. Það var á haustmánuðum 1929 að verkamenn og sjómenn í Miðneshreppi kölluðu til fundar í þeim tilgangi að stofna með sér félag. Þann 10. október 1929 var stofnfundurinn haldinn í barnaskólahúsinu sem stóð við skólatjörnina. Aðalhvatamaður að stofnun félagsins var þó ekki verkamaður heldur kennarinn Sigurbogi Hjörleifsson. Í fyrstu stjórn voru kjörnir Guðjón Jónsson bóndi, oftast kenndur við Endagerði, Sigurður Ólafsson sjómaður var ritari og Björn Samúelsson gjaldkeri. Á fyrsta árinu gengu 60 manns í félagið.
Lög félagsins voru samþykkt á framhaldsstofnfundi félagsins sem haldinn var 27. október 1929 og telst sá dagur stofndagur félagsins. Í lögunum var meðal annars skilgreint takmark félagsins. Eins og gefur að skilja var það að bæta kjör verkalýðsins í Miðneshreppi en einnig setti félagið sér það markmið að ,,stuðla að sjálfstæðri þátttöku bænda í stjórn sveitafélagsins og vinna að hverskonar umbótum sem mega verða til þess að efla hag og velgengni hreppsins í nútíð og framtíð. Samkvæmt þessu var félagið ekki einungis verkalýðsfélag heldur einnig almennt hagsmunafélag fyrir hreppsbúa. Þetta ákvæði mun vera tilkomið vegna þess að stærstu atvinnurekendur í hreppnum voru utanbæjarmenn; Haraldur Böðvarsson hafði bækistöð á Akranesi og Loftur Loftsson í Reykjavík.
Gömul mynd frá höfninni í Sandgerði
Gömul mynd af fiskvinnslu í Sandgerði
Skrifstofa félagsins að Tjarnargötu 8