Ef þið segið upp kjarasamningi og hafið af láglaunafólki réttmætar launahækkanir mun verkalýðshreyfingin beita afli sínu til þess að tryggja að til þeirra hækkana muni koma. Allt annað verður lagt til hliðar á meðan. Ef þið viljið stríð, þá munuð þið fá stríð, sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ í ávarpi sínu við setningu þings SGS. Ávarp Gylfa fer hér á eftir
Launafólk hefur sjaldan eða aldrei staðið frammi fyrir jafn alvarlegri stöðu í efnahags- og atvinnumálum og nú. Þegar í upphafi settum við okkur það verkefni að treysta stöðu þeirra tekjulægstu og verja hag heimilanna í þessu gjörningaverðri sem á landsmönnum hefur dunið frá hruni fjármálakerfisins fyrir réttu ári síðan, samhliða því að leggja fram ígrundaðar tillögur um endurreisn og uppbyggingu atvinnulífsins til að skapa fleiri störf. Þetta hefur ekki verið létt verk en það er mín skoðun að við þessar aðstæður hafi mikilvægi verkalýðshreyfingar og einarðrar samstöðu innan okkar raða aldrei verið nauðsynlegri.Ég er líka þeirrar skoðunar að órofa samstaða okkar hefur skilað mikilvægum árangri við að verja þann kjarasamning sem við gerðum í febrúar 2008. En góðir félagar, samningurinn er aftur komin í uppnám því langlundargeð atvinnurekenda gagnvart úrræðaleysi stjórnvalda í nánast öllum málum er að þrotum komið. Allt eins gætum við staðið frammi fyrir því, að þrátt fyrir náið samstarf samtaka launafólks og atvinnurekenda í þessari glímu komi til uppsagna kjarasamninga í lok mánaðarins. Það væri auðvitað alveg skelfileg staða en ég hef líka sagt það alveg skýrt við talsmenn atvinnurekenda. Ef þið segið upp kjarasamningi og hafið af láglaunafólki réttmætar launahækkanir mun verkalýðshreyfingin beita afli sínu til þess að tryggja að til þeirra hækkana muni koma. Allt annað verður lagt til hliðar á meðan! Ef þið viljið stríð þá munið þið fá stríð!
En ágætu félagar, það hefur heldur ekki allt gengið eftir. Við höfum einnig verið að glíma við grafalvarlega stöðu á vettvangi stjórnmálanna. Allt síðastliðið ár hefur verið mikill pólitískur óróleiki og í rauninni hefur hér verið samfelld pólitísk kreppa frá því í nóvember. Ég finna það mjög á samtölum mínum við fólk héðan og þaðan, að við þessar aðstæður eru miklar væntingar til þess að verkalýðshreyfingin standi vaktina og skapi þá festu sem þarf. Í raun hefur þetta staðið yfir lengi og ég hef haldið því fram að ástæða þess að við misstum tök á stöðugleikanum sé ekki að finna í samskiptum á vinnumarkði, heldur skorti á ábyrgri efnahagsstjórn stjórnvalda. Eftir kosningar s.l. vor settumst við að þríhliða samningum um mótun sérstaks sáttmála um endurreisn stöðugleika þar sem við lögðum upp í hendurnar á ríkisstjórninni og Seðlabanka fjögurra mánaða svigrúm til þess að tryggja lækkun vaxta og styrkingu á gengi krónunnar. Segja má að nánast ekkert hafi gerst í neinum málum frá undirritun sáttmálans þann 25. Júní annað en endalaus umræða um Icesave. Ríkisstjórnin missti meirihluta sinn á þingi og til varð ný meirihluti sem setti fjölda fyrirvara við þeim samningi sem ríkisstjórnin hafði gert við ríkisstjórnir Breta og Hollendinga. Ég fullyrði að meginmarkmið stjórnarandstöðunnar með þessum fyrirvörum var að fella ríkisstjórnina og ekki er útilokað að það hafi tekist. Nýjasta upphlaupið á þinginu er að segja skilið við AGS, bæði lánin og áætlunina en átta sig greinilega ekki á þeirri grafalvarlegu stöðu sem slíkt hefði í för með sér gagnvart aðgengi okkar að alþjóðlegum fjármálamörkuðum þeir eru okkur lokaðir og verða það þangað til við öxlum ábyrgð á örlögum okkar og gerum hreint fyrir okkar dyrum. Stöðugleikasáttmálin er í fullkomnu uppnámi, en tókuð þið eftir því að enginn þingmaður sem tók til máls í eldhúsdagsumræðunum á mánudaginn hafði af því nokkrar áhyggjur! En Alþingi undirstrikar það daglega og engin þjóð mun koma okkur til hjálpar án öryggis af skilmálum AGS.
Við svona aðstæður er það okkar hlutverk og skylda að verja grunnstoðir velferðarkerfisins og ég vil leyfa mér að halda því fram að samkomulag okkar við ríkisstjórnina við gerð stöðugleikasáttmálans hefur haldið, ríkisstjórnin hefur hlíft viðkvæmustu þáttum kerfisins. En hlutverk okkar í velferðarkerfinu er ekki síður mikilvæg við framkvæmd veigamikilla þátta þess sem snýr að launafólki við höfum byggt upp velferðakerfi vinnumarkaðarins í samstarfi við atvinnurekendur.
Stéttarfélögin reka umfangsmikla velferðarþjónustu við sína félagsmenn í formi mikilvægra réttinda í sjúkrasjóðum og lífeyrissjóðum og með kjarasamningunum í febrúar 2008 tókst okkur að bæta enn einum mikilvægum þætti í þessa flóru með samkomulaginu um starfsendurhæfingarsjóð. Við höfum verið að ýta þessu verkefni úr vör og ég hygg að við séum um það bil að ljúka því verkefni að allir okkar félagsmenn hafi aðgengi að sérstökum ráðgjafa ef upp koma alverleg veikindi sem ógna starfsgetu viðkomandi. Ég vil einnig draga fram mikilvægi starfsmenntamálanna, bæði sjóðanna okkar og ekki síður uppbyggingu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og símenntamiðstöðvanna. Ég nefni þetta hér, því mér finnst verulega skorta á skilning stjórnvalda fyrir mikilvægi þessara þjónustu og réttinda sem við höfum verið að tryggja fólki. Staðreyndin er sú, að réttindi sem okkar fólk hefur í gegnum kjarasamninga og þjónustu stéttarfélaganna hefur verið miklu öruggari og traustari en sá hluti sem verið hefur í höndum Alþingis og ráðuneyta. Í því atvinnuleysi sem nú dynur yfir þjóðina hafa komið fram verulegir brestir í þeirri uppstokkun á umsýslu með atvinnuleysistryggingum og samskiptum við þá sem missa vinnuna. Aldrei fyrr hefur það gerst, að þátttaka atvinnulausra í stéttarfélögum hefur dottið úr yfir 90% niður í um 50% eins og nú. Ég lít þetta mjög alvarlegum augum því við þetta er fólk að missa veigamikil réttindi bæði vegna veikinda og til endurmenntunar. Það er því og hefur verið mikil og einörð andstaða okkar við öllum hugmyndum félags- og tryggingamálaráðherra að gera frekari breytingar á stofnanalegri umgjörð vinnumarkaðarins með sameiningu Tryggingastofnunar, Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins. Stjórnvöld eiga einfaldlega að viðurkenna að þessar breytingar hafa verið mistök sem þarf að leiðrétta hið fyrsta og auka aftur hlutverk stéttarfélaganna í þessari umsýslu. Það er athyglisvert, að forysta Samtaka atvinnulífsins er okkur sammála um þetta en ekki ríkisstjórn vinstri flokkanna merkilegt ekki satt. Ég hef þá sýn, að við eigum að skora hér og nú á félagsmálaráðherra að setjast að rökstólum við verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur um að snúa af þessari óheillabraut og búa til nýtt og framsækið kerfi hér á vinnumarkaði sem tekur tillit til virks hlutverks stéttarfélaganna í hagsmunagæslu og þjónustu við félagsmenn. Í slíkum viðræðum eigum við að nálgast verkefnið með opnum hug og flétta saman aðferðafræði okkar með ráðgjafa Starfsendurhæfingarsjóðs, náms- og starfsráðgjafa Fræðslumiðstöðvar og þjónustu við atvinnulausa, einkum langtímaatvinnulausa.
Að lokum ágætu félagar stöndum við frammi fyrir ögrandi áskorunum við endurreisn atvinnulífsins. Hér er tvennt sem ég vil staldra við. Annars vegar höfum við ítrekað sett fram kröfur um nýtt siðferðismat í stjórnun fyrirtækja, þar sem saman fari skilvirk löggjöf og víðtæk samfélagsleg ábyrgð þeirra. Verkalýðshreyfingin vill ekki og mun ekki samþykkja að hagkerfið verði endurræst á sömu vitlausu forsendum og síðast aldrei aftur! Að sama skapi verðum við að leggja nýjar forsendur fyrir atvinnuþróun inn í framtíðina. Ég er þeirrar skoðunar að Ísland eigi að hasla sér völl á grundvelli sjálfbærar þróunar og grænu hagkerfi. Hrein orka úr fallvötnum og iðrum jarðar eru gríðarlegar auðlindir sem við búum að en við eigum einnig mikla möguleika í bæði sjálfbærri ferðaþjónustu og eikum og sér í lagi á sviði matvælaframleiðslu bæði úr sjávarfangi og landbúnaði. Forsenda þessarar þróunar er tvíþætt, það verður að tryggja aukin stöðugleika í hagkerfinu og traustan gjaldmiðil og tryggja okkur aðgang að erlendum mörkuðum fyrir fullunnar afurðir sjávarútvegs og landbúnaðar. Við eigum ekki að láta þrönga hagsmuni talsmanna núverandi fyrirtækja vera ráðandi við eigum að leggja grunn að nýrri þróun með nýjum fyrirtækjum sem hafa þrótt og vilja til að mæta nýjum áskorunum og fjölga störfum um land allt.
Að lokum vil ég óska ykkur velfarnaðar í starfi ykkar á þessu þingi. Umræða ykkar er mikilvæg og það verður eftir tillögum ykkar tekið og munið umfram allt að samstaða ykkar og okkar allra er það vopn sem mun verða launafólki mikilvægast.