Verkalýðs og sjómannafélag Sandgerðis óskar öllu launafólki og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.
Í tilefni af baráttudegi verkafólks 1. Maí verður Verkalýðs og sjómannafélag Sandgerðis með opið hús að Tjarnargötu 8, húsi félagsins frá kl. 15 – 17.
Kaffi og meðlæti og létt spjall.
Allir velkomnir
Mynd frá hátíðahöldum á 1. Maí 2010
Atvinna og aukinn kaupmáttur leggja grunn að þeirri velferð sem við viljum búa við. Staðreyndin er sú að atvinnuleysi er mikið og kaupmáttur hefur minnkað. Þeirri þróun verður að snúa við með aukinni verðmætasköpun og nýjum fjárfestingum. Ísland er í fararbroddi í vistvænni orkunýtingu og á þar mörg ónýtt tækifæri. Ýta verður undir nýsköpun, styðja við sprotafyrirtæki, auðvelda erlenda fjárfestingu, auka fullvinnslu innanlands og bæta markaðssetningu erlendis á afurðum, þjónustu, og hugviti.
Verkalýðshreyfingin krefst þess að þegar verði gengið til kjarasamninga af fullri alvöru. Verkalýðshreyfingin hafnar yfirgangi atvinnurekenda sem tekið hafa kjarasamninga launafólks í gíslingu sérhagsmuna. Við viljum samstarf sem tryggir aukin kaupmátt og jöfnun kjara, en höfnum grófri aðför að hagsmunum launafólks. Með slagkrafti samstöðunnar stöndum við vörð um okkar hag og áframhaldandi velferð á Íslandi með átökum ef með þarf!