Á fundi miðstjórnar ASÍ á fimmtudag kom fram að ríkisstjórnin hefði boðað aðila Stöðuleikasáttmálans á fund til að ræða aðkomu að nýrri samstarfsáætlun. Þar kom fram af hálfu fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar að reynslan af Stöðugleikasáttmálanum og framgangi hans væri ekki með þeim hætti að hún gæfi tilefni til bjartsýni varðandi samstarf stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar.
Í reynd hefðu stjórnvöld ekki staðið við mikilvæga þætti sáttmálans og ekki hafi verið hægt að treysta þeim loforðum sem ríkisstjórnin gaf í tengslum við hann. Í því sambandi var bent á aðgerðaleysið í atvinnumálum sem ASÍ hefur lengi gagnrýnt og svik varðandi lögbindingu framlaga til Starfsendurhæfingarsjóðs. Af þessum ástæðum hefði ASÍ sagt sig frá Stöðugleikasáttmálanum.
Þá lægi nú fyrir að ríkisstjórnin ætlar ekki að standa við loforð í skattamálum auk þess sem ekki á að verðbæta lífeyrisgreiðslur til elli- og örorkulífeyrisþega. Hefðu stjórnvöld raunverulegan áhuga á samstarfi væri réttast að þau byrjuðu á að efna það sem þegar hefði verið lofað. Fram kom á miðstjórnarfundinum að lítill áhugi væri meðal félagsmanna aðildarfélaganna á nýjum Stöðugleikasáttmála eða “samstarfsáætlun” í ljósi framgöngu stjórnvalda.