Félagsfundur í tilefni 80 ára afmælis félagsins.

Kjarasamningarnir halda – SA nýtti sér ekki uppsagnarákvæði
28/10/2009
Ráðgjafi Virk á Suðurnesjum
03/11/2009
Sýna allt

Félagsfundur í tilefni 80 ára afmælis félagsins.


Boðað var til almenns félagsfundar á 80 ára afmæli félagsins 27. október kl. 18.

Dagskrá fundarins var að formaður flutti stutt ávarp og að því loknu var boðið upp á kaffi og kræsingar. Ágætis mæting var á fundinn og líflegar umræður.


Í tilefni afmælisins hefur verið ákveðið að senda félagsmönnum dagbækur og penna merkta félaginu.


Ávarp formanns fer hér á eftir:



Magnús S. Magnússon formaður VSFS


Kæru félagsmenn til hamingju með 80 árin.

Ég vil á þessum tímamótum aðeins fara yfir og rifja upp söguna, stofnun og markmið Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis fyrir 80 árum. Það er margt mjög líkt núna og þegar félagið tók til starfa í kreppunni miklu snemma á síðustu öld með kauplækkunum og fleiru.
Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis er elsta starfandi stéttarfélag á Suðurnesjum. Það var á haustmánuðum 1929 að verkamenn og sjómenn í Miðneshreppi kölluðu til fundar í þeim tilgangi að stofna með sér félag. Þann 10. október 1929 var stofnfundurinn haldinn í barnaskólahúsinu sem stóð við skólatjörnina. Aðalhvatamaður að stofnun félagsins var þó ekki verkamaður heldur kennarinn Sigurbogi Hjörleifsson. Í fyrstu stjórn voru kjörnir Guðjón Jónsson bóndi, oftast kenndur við Endagerði, Sigurður Ólafsson sjómaður var ritari og Björn Samúelsson gjaldkeri. Á fyrsta árinu gengu 60 manns í félagið.
Lög félagsins voru samþykkt á framhaldsstofnfundi félagsins sem haldinn var 27. október 1929 og telst sá dagur stofndagur félagsins. Í lögunum var meðal annars skilgreint markmið félagsins. Eins og gefur að skilja var það til að bæta kjör verkalýðsins í Miðneshreppi. En einnig setti félagið sér það markmið að ,,stuðla að sjálfstæðri þátttöku bænda í stjórn sveitafélagsins og vinna að hverskonar umbótum sem mega verða til þess að efla hag og velgengni hreppsins í nútíð og framtíð.“ Samkvæmt þessu var félagið ekki einungis verkalýðsfélag heldur einnig almennt hagsmunafélag fyrir hreppsbúa. Þetta ákvæði mun vera tilkomið vegna þess að stærstu atvinnurekendur í hreppnum voru utanbæjarmenn; Haraldur Böðvarsson hafði bækistöð á Akranesi og Loftur Loftsson í Reykjavík.


Fyrsti kjarasamningurinn


Í árslok 1930 fór félagið að huga að sínum fyrstu kjarasamningum og naut til þess fullþingis Alþýðusambands Íslands en félagið gekk í sambandið 22. desember 1930. Inngangan í ASÍ gekk ekki átakalaust fyrir sig frekar en í mörgum öðrum verkalýðsfélögum. Atvinnurekendur staðarins skrifuðu undir þessa fyrstu samninga, Loftur þann 29. desember 1930 og Haraldur þann 8. janúar 1931. Tímalaun í dagvinnu voru 1 króna og í eftirvinnu var greidd 1.40 á klukkustund. Þetta var karlakaupið en konur fengu 70 aura á tímann í dagvinnu og eina krónu á tímann í eftirvinnu. Kreppan mikla vofði yfir landsmönnum og næsta ár á eftir náðust ekki samningar fyrr en búið var að lækka helgidagakaup karla og lækka laun kvenna um 10 aura í dagvinnu og um 20 aura í eftirvinnu! Loftur samþykkti samningana en Haraldur hafnaði þeim algjörlega.
 Félagsmönnum fækkaði umtalsvert og á endanum sagði félagið sig úr ASÍ í nóvember 1932. Næstu ár á eftir átti félagið erfitt uppdráttar og inn á milli lagðist starfsemi þess niður um tíma. Alltaf lifðu þó einhverjar glæður sem blásið var í öðru hvoru þar til tókst að festa félagið í sessi til frambúðar.
Undanfarin ár hefur félagið rekið skrifstofu að Tjarnargötu 8. í Sandgerði og er skrifstofan opin fjóra daga í viku og er félögunum veitt sú þjónustu þar sem þeir eiga rétt á, einnig fer þar fram félagsstarf félagsinns.




Merki og forysta félagsins


Merki félagsins er mjög lýsandi fyrir uppruna félagsmanna. Þar er samsett úr skóflu verkamannsins og segli sjómannsins og utan um það er stýrishjólið. Hugmyndina að merkinu eiga Baldur G. Matthíasson, Sigurður Margeirsson þáverandi formaður og Grétar Sigurðsson.



Eignir félagsins


Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis hefur verið góð rekstrareining í gegnum árin og rekið eigin sjúkrasjóð, orlofssjóð og félagssjóð. Snemma á áttunda áratugnum var hugmynd um að stofna verkfallsjóð innan félagsins en í staðinn var fyrsta orlofshúsið keypt að Hraunborgum í Grímsnesi sem ber nafnið Sandgerðisvör. VSFS á nú fjögur orlofshús til útleigu fyrir félagsmenn; eitt í Húsafelli við Kiðárbotna, tvö í Hraunborgum í Grímsnesi og eina íbúð að Tjarnarlundi 10d á Akureyri. Íbúðin er vel búin og auk þess eru sex reiðhjól sem félagið á til afnota fyrir dvalargesti.
Orlofshúsin eru vel nýtt af félagsmönnum. Þau eru mjög vel búin og heitir pottar við hvert hús. Síðast keypti félagið húsið Sölvhólsvör, sem er við hlið Sandgerðisvarar í Hraunborgum, af Sjómannafélagi Reykjavíkur.
Félagið á eigið húsnæði að Tjarnargötu 8, efri hæð, alls um 90 fm. Þar er skrifstofa félagsins, vel búin fundarsalur og eldhús. Auk þess á félagið bílskúr á lóðinni sem notaður er sem skjalageymsla og fleira.
Starfsmenn félagsins eru tveir formaðurinn er í hálfu starfi og starfsmaður á skrifstofu,  Erla Sigursveinsdóttir í hálfu starfi fyrir félagið.


Félag til framtíðar


Í dag eru félagsmenn í Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis tæplega 400. Hlutfall sjómanna hefur minnkað mikið þar sem útgerð hefur dregist mikið saman á Suðurnesjum miðað við það sem áður var. Félagið stendur vel en samt er nauðsynlegt að skoða vel hvernig hagsmunum félagsmanna er best komið til framtíðar. Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis gerðist stofnaðili að Verkamannasambandinu og á núna aðild að Starfsgreinasambandinu, svo og Sjómannasambandi Íslands. Í gegnum þau samtök er félagið einnig aðili að Alþýðusambandi Íslands.
Þeir kjarasamningar sem félagið er aðili að eru flestir gerðir á landsvísu og af þessum heildarsamtökum launafólks sem félagið er aðili að. Frá undirritun kjarasamningar árið 2000 hefur félagið verið í samstarfi við Landsmennt, Sveitamennt, Ríkismennt og Sjómennt um endur- og símenntun félagsmanna. Greiðsla fyrir námskeið af ýmsum toga er vaxandi þáttur í daglegri starfsemi félagsins, svo og ýmis aðstoð, fræðsla og upplýsingagjöf fyrir félagsmenn.
Í september 2009 skrifaði félagið í Sandgerði undir samstarfssamning ásamt öðrum stéttafélögum á Suðurnesjum við VIRK  um þjónustu á sviði starfsendurhæfingar fyrir félagsmenn þessara stéttarfélaga.
Nú hef ég farið yfir lítið brot af sögunni og hafa hlutirnir ekki alltaf verið auðveldir áður fyrr frekar en nú. Vonandi tekst vel til í framtíðinni að verja hag og kjör félagsmanna. Ég vil óska félaginu og öllum félagsmönnunum alls hinns besta í náinni framtíð með hag og kjör þeirra að leiðarljósi.



Afmæliskveðja
Magnús S Magnússon.
formaður.

Smellið hér til að skoða myndir