Annar formannafundur ASÍ vegna endurskoðunar kjarasamninga verður haldinn í dag mánudaginn 7. janúar kl. 13. Á föstudaginn síðasta funduðu forystumenn ASÍ og SA um stöðuna sem uppi er vegna endurskoðunarinnar en forseti ASÍ hefur sagt Alþýðusambandið vilja fá þann kaupmátt sem samið var um í maí 2011. Verði kjarasamningum ekki sagt upp kemur 3,25% launahækkun til framkvæmdar 1. febrúar en ASÍ vill meira í ljósi mun hærri verðbólgu en forsendur gerðu ráð fyrir. Á formannafundinum á mánudaginn verður farið yfir viðbrögð atvinnurekenda við þessari kröfu og næstu skref rædd.
Fyrir kl. 16:00 þann 21. janúar 2013 þarf samninganefnd ASÍ og framkvæmdastjórn SA að tilkynna hvorum aðila um sig niðurstöðu sína varðandi framlengingu kjarasamninga.
Fundirnir verða haldnir á grundvelli VIII. kafla laga ASÍ um formannafundi.
Fundirnir verða sem hér segir:
7. janúar 2013, kl. 13 Grand hótel (Gullteigur A)
18. janúar 2013, kl. 13 Grand hótel (Hvammur)
Setu- og atkvæðarétt á formannafundum eiga skv. 36. gr. ,,formenn allra aðildarfélaga ASÍ, formenn aðildardeilda einstakra sambanda, forseti og varaforseti ASÍ, þeir miðstjórnarmenn (aðal- og varamenn) sem ekki eru formenn aðildarfélaga eða aðildardeilda auk formanns ASÍ-UNG.