Formannafundi Alþýðusambandsins um efnahags og atvinnumál lauk á Grand hótel síðdegis.Áhyggjur vegna stöðu atvinnumála var áberandi á fundinum og var þungt í mönnum. Framtaksleysi ríkisstjórnar og sveitarfélaga varðandi stærri framkvæmdir voru harðlega gagnrýnd. En það var ekki bara stjórn og stjórnarliðar sem voru gagnrýnd heldur einnig stjórnarandstaðan sem ber einnig ábyrgð á ástandinu.
Einnig kom fram afar hörð gagnrýni á hendur Samtaka atvinnulífsins fyrir að segja sig frá Stöðuleikasáttmálanum vegna skötusels þegar þúsundir manna eru búnar að missa vinnuna. Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ segist enn sjá ákveðin verðmæti í stöðugleikasáttmálanum. Samstaða þeirra fjölmörgu aðila sem komu að honum er afar mikilvæg svo unnt sé að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins verða að taka höndum saman um að vinna þjóðina út úr vandanum. Einn fundarmaður spurði hvort stjórn og stjórnarandstaða auk SA væru búin að kasta árunum og létu nú reka? Fundarmenn voru sammála um að Alþýðusambandið gæti ekki horft aðgerðarlaust á slíkt gerast.