Forseti ASÍ segir verkalýðshreyfinguna standa frammi fyrir erfiðu vali

Ályktanir formannafundar Starfsgreinasambandsins
18/10/2010
Ný spá hagdeildar ASÍ gerir ráð fyrir hægfara bata
21/10/2010
Sýna allt

Forseti ASÍ segir verkalýðshreyfinguna standa frammi fyrir erfiðu vali

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði í setningarávarpi sínu á ársfundi ASÍ sem hófst í morgun að verkalýðshreyfingin standi fyrir erfiðu vali; annars vegar leið samstöðu og sameiginlegrar vinnu með atvinnurekendum og stjórnvöldum en hins vegar um leið sundurlyndis og sérhyggju sem einkennir þá leið sem ríkisstjórnin og Alþingi hafa valið.


Setningarræða Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ á ársfundi Alþýðusambands Íslands 2010.


Góðir ársfundarfulltrúar, félags- og tryggingamálaráðherra.


Við höldum nú þriðja ársfund Alþýðusambandsins á þeim tveimur árum sem liðin eru frá hruni fjármálakerfisins, hruni sem markaði upphaf dýpstu efnahagskreppu á lýðveldistímanum til að ráða ráðum okkar, endurskoða baráttuaðferðirnar og marka stefnuna um hvert skal halda. Og það er engin launung á því að síðasta ár upplifðu mörg okkar sem ár hinna brostnu væntinga og því segjum við á þessum fundi ,,Stopp – hingað og ekki lengra!‘‘.


Fyrir réttu ári síðan stóðum við í hörðum slag við bæði ríkisstjórn og atvinnurekendur og útlitið var dökkt. Kjarasamningur okkar hékk á bláþræði og umtalsverðar taxtahækkanir voru í húfi – hækkanir sem komu sérstaklega þeim tekjulægstu til góða.


Eins og þið vafalaust munið gengu aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld frá formlegum samningi í júní 2009 um hvernig tryggja mætti þann stöðugleika í íslensku efnahagslífi sem sárlega var kallað eftir. Ljóst var að launafólk hafði tekið á sig mikið högg. Ekki einasta með lækkuðum kaupmætti, samdrætti í vinnu og tapi eigna í hrunadansi gengisfellinga heldur einnig og ekki síður með því að þúsundir félaga okkar höfðu misst atvinnuna og ekki útlit fyrir að úr því myndi rætast í bráð. Við gerðum okkur grein fyrir því að taka yrði á vandanum, kröfðumst áhrifa á forgangsröðun en umfram allt vildum við aðgerðir í atvinnumálum til að auka tekjur og atvinnu félaga okkar og skilvirk úrræði fyrir þær fjölskyldur sem áttu í miklum greiðslu- og skuldavanda.


Atvinnurekendur féllust á að láta hluta kauphækkana koma til framkvæmda í júlí en gerðu kröfu um að hluti þeirra myndi frestast fram á haustið, og settu fyrirvara um að stjórnvöld efndu þau markmið og fyrirheit sem skrifuð voru inn í stöðuleikasáttmálann.


Þegar á reyndi kom í ljós að stjórnvöld höfðu ekki staðið við sín fyrirheit.


Litlu munaði því í október 2009 að atvinnurekendur segðu sig frá sáttmálanum og þeim umsömdu kauphækkunum sem ekki voru komnar til framkvæmda – en það gerðu stjórnvöld hins vegar í reynd.


Þau gerðu það ekki með formlegum hætti eins og heiðarlegast hefði verið, heldur með endurteknum og alvarlegum vanefndum á þeim þáttum sem þau höfðu gefið fyrirheit um.


Það á við um loforð stjórnvalda um náið samráð í veigamiklum málum sem varða hagsmuni launafólks, en alvarlegast og sárast hefur þó verið ótrúlegt framtaksleysi stjórnvalda í atvinnumálum og nauðsynlegar atvinnu- og tekjuskapandi framkvæmdir. Það er mikið áhyggjuefni að svo virðist sem málaflokkurinn atvinnumál hafi verið tekin í gíslingu fámenns hóps og ríkisstjórnin í rauninnj misst forræði á málinu.


Það á við um loforð stjórnvalda að hækka og verja skattleysismörk þannig að þau héldu verðgildi sínu.


Það á við um loforð stjórnvalda um viðræður um beina aðkomu stéttarfélaganna í framkvæmd þjónustu við atvinnulausa, sem er eitt þeirra verkefna sem verkalýðshreyfingin hefur alltaf haft á sinni könnu og sinnt, vel en sem misvitur stjórnvöld höfðu tekið af henni.


Það á við um loforð stjórnvalda um nauðsynlegar lagabreytingar til þess að tryggja öllum félagsmönnum Alþýðusambandsins skýlausan rétt til starfsendurhæfingar, einnig þeim sem starfa hjá fyrirtækjum sem ekki eru í Samtökum atvinnulífsins.


Það á ekki síst við um ófullnægjandi aðgerðir til bjargar skuldsettum heimilum, en erfið greiðslu- og skuldastaða þeirra félaga okkar sem urðu hvað verst úti í efnahagshruninu hefur verið eitt af meginviðfangsefnum okkar s.l. tvö ár. ASÍ hefur lagt mikla áherslu á að frá fram breytingar á lögum og reglum svo hægt sé að takast með trúverðugum og sanngjörnum hætti á við mikinn greiðslu- og skuldavanda þessara heimila – þeirra fjölskyldna sem eru að missa heimili sín á uppboðum þessar vikurnar. Krafa okkar er að þetta verði gert með aðlögun á greiðslubyrði í formi hagstæðari greiðslu- og lánaskilmála og með beinni afskrift og lækkun skulda ef með þarf. Krafa okkar er og hefur verið um að treysta rétt fólksins – ekki rukkaranna!


Ég vil leyfa mér að ítreka það enn einu sinni, að þó okkar barátta hafi fyrst og fremst snúist um að hjálpa þeim sem lentu í mestum vanda í efnahagshruninu – þeirra sem eru að missa heimili sín – er það einfaldlega rangt að við höfum brugðið fæti fyrir almenna lækkun skulda allra óháð því hvort þeir þurfi á því að halda eða ekki. Þeir sem sett hafa slíkar tillögur á oddinn hljóta hins vegar að bera ábyrgð á því að finna haldbærar, lögmætar og siðlegar leiðir til að fjármagna slíka aðgerð. Hitt er rétt að ASÍ hefur algerlega hafnað því að almennt launafólk og elli og örorkulífeyrisþegar úr okkar röðum verði látið bera verulegan hluta þessa kostnaðar með því að taka lífeyrissparnað þess ófrjálsri hendi. Slíkt er ekki bara ólögmætt heldur einnig og ekki síður algerlega siðlaust og ég get alveg fullvissað ykkur um það, að þetta verður ekki gert á minni vakt!


En kæru félagar.


Eitt er þó að svíkja loforð gagnvart verkalýðshreyfingunni en annað að fara með beinum aðgerðum gegn henni, en það gerði þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra í mars s.l. þegar kynnt var frumvarp að nýjum lögum um sameiningu Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins. Innan þessara stofnana er fjallað um kjarnahagsmuni launafólks og áratuga hefð fyrir farsælu samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um úrlausn þeirra viðfangsefna. Nú brá svo við að útiloka átti verkalýðshreyfinguna frá öllum beinum áhrifum í þessum málaflokkum. Alþýðusambandið mótmælti þessu harðlega og fór svo að leikslokum að nauðsynlegar breytingar voru gerðar á frumvarpinu.


Þó okkur hafi tekist að verja stöðu hreyfingarinnar í þessu máli þá fer ekki hjá því að trúverðugleiki stjórnvalda í samstarfinu hafa beðið verulega hnekki og samráð iðulega svikið. Þegar við bættist sú staðreynd að stjórnvöld voru á engan hátt að efna fyrirheit sín og ljóst að andrými stöðugleikasáttmálans var ekki notað í þágu launafólks í formi aðgerða til að auka atvinnu og tekjur eins og til stóð sagði ASÍ sig frá öllu samstarfi við ríkisstjórnina í júní s.l. Það er einfaldlega ekki hægt að sitja á friðarstóli við aðila, sem ekki hefur í hyggju að standa við loforð sín!


Þessa þróun vanefnda og samráðsleysis um mikilvægustu hagsmuni okkar hef ég góðir félagar talsverðar áhyggjur því að baki henni býr bæði mikið skilningsleysi og vanvirðing á mikilvægi þess að fulltrúar launafólks fái beina aðkomu að þeim málum er varða hagsmuni þess.


Ég veit að ég þarf ekki að skýra það fyrir ykkur að þríhliða samstarf stjórnvalda, samtaka launafólks og atvinnurekenda er hjartað í þróun þeirra velferðarsamfélaga sem byggð hafa verið upp á hinum Norðurlöndunum. Ég veit að ég þarf ekki að skýra það fyrir ykkur að ástæðan fyrir því að norrænu velferðarsamfélögin hafa betur náð að leysa úr erfiðum kreppum með jöfnuð og jafnrétti að leiðarljósi er rík og ábyrg aðkoma verkalýðshreyfingarinnar að allri stefnumótun og framkvæmd.


Það er hins vegar dapurlegt að verkalýðshreyfingin hafi neyðist til þess að segja sig frá samstarfi við ríkisstjórn sem við hátíðleg tækifæri kennir sig við grundvallarhugsjónir jafnaðarstefnunnar og norræna velferð. Hvers vegna svo er komið er verðugt rannsóknar efni, en það er mikil einföldun að halda því fram að skýringa sé einungis að leita í þeim persónum og leikendum sem núna eru á vettvangi, þó sumum láti að gefa slíkt í skyn.


Í því sambandi getum við rifjað upp þær róttæku breytingar sem gerðar hafa verið á félagslega- og almenna húsnæðiskerfinu á síðustu tveimur áratugum. Þar átti í hlut kerfi sem samtök launafólks áttu frumkvæði að, sem almennt launafólk og lífeyrissjóðir þeirra fjármögnuðu, og ætlað var að tryggja almennu launafólki öruggt og gott íbúðarhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. En það er eins með þetta og deilu okkar um aðkomu stéttarfélaganna að þjónustu við atvinnulausa og þjónustu VIRK við þá félaga okkar sem horfið hafa af vinnumarkaði vegna veikinda og slysa og þurfa annað tækifæri til þess að ná aftur fótfestu á vinnumarkaði með markvissri starfsendurhæfingu, þá sögðu stjórnvöld nú getum við – ykkar aðkomu er ekki lengur óskað.


Á þessum tveimur áratugum hefur stjórnvöldum, alveg óháð hinu pólitíska litrófi, tekist að útrýma nánast öllum ásættanlegum lausnum í húsnæðismálum landsmanna. Öllu félagslegu eignaríbúðahúsnæði hefur verið útrýmt og tækifærum almenns launafólks til myndunar á eign í eigin íbúðarhúsnæði eytt og þar með tækifærum launafólks til þess að skapa sér og fjölskyldu sinni traustari fjárhags- og félagslega framtíð. Fyrir þetta hafi stjórnvöld ævarandi skömm fyrir því nú þegar á reynir og fjöldi félaga okkar er í sárri þörf fyrir félagslegt íbúðarhúsnæði er að litlu að hverfa. Húsaleigan er flestum óviðráðanleg og stjórnvöld áforma verulegar skerðingar á húsleigubótum! Það er mín skoðun að verkalýðshreyfingin verði enn einu sinni að lyfta Grettistaki og endurreisa hér íbúðakerfi sem gagnast almennu launafólki!


Ágætu félagar,


Samskipti okkar við samtök atvinnurekenda hafa að mörgu leiti verið náin undanfarin misseri. Þar kemur tvennt til. Í fyrsta lagi lögðum við mikinn þrýsting á atvinnurekendur að þeir efndu þær launahækkanir sem samið var um í febrúar 2008. Við gerðum þeim grein fyrir því að litið yrði á uppsögn af þeirra hálfu sem griðrof í samskiptum okkar, en ákvörðun þeirra að efna launahækkanirnar gagnvart launafólki þrátt fyrir vanefndir stjórnvalda hafa að sama skapi aukið trúnað í samskiptum okkar. Í öðru lagi vorum við samtaka um að þrýsta á stjórnvöld um efndir á loforðum í atvinnumálum með því að greiða fyrir endurreisn og uppbyggingu atvinnulífsins og opinberum framkvæmdum, enda miklir hagsmunir í húfi fyrir þann mikla fjölda félaga okkar sem er án atvinnu!


Ég geri mér grein fyrir því að margir, m.a. innan okkar eigin raða, hafa gagnrýnt okkur fyrir þetta samstarf, en ég er sannfærður um að það hefur skilað okkur árangri.


Það er hins vegar að sama skapi algjörlega óþolandi og óásættanlegt, að mitt í þessu samstarfi leiðbeini samtök atvinnurekenda aðildarfyrirtækjum sínum með skipulegum hætti – með námskeiðahaldi – hvernig þau geti komist hjá því að efna þær almennu launahækkanir, sem samið var um í kjarasamningum. Það getur ekki gengið og mun leiða til þess að trúnaður milli samtakanna rofnar.


Kæru félagar.


Nú stöndum við – æðsta stofnun Alþýðusambands Íslands – og raunar verkalýðshreyfingin öll, frammi fyrir flókinni og erfiðri stöðu.Höfum það hugfast, að verkalýðshreyfingin hefur ætíð verið einörð rödd almenns launafólks og útvörður þess í hagsmunabaráttunni við atvinnurekendur og stjórnvöld.Á sama tíma hefur hreyfingin verið talsmaður samvinnu, samráðs og skynsemi í áherslum okkar í stjórn efnahags- og atvinnumála. Það sést best af þeim mikla árangri sem náðist þegar íslensku efnahagslífi var með sameiginlegu átaki lyft út úr tímabili óðaverðbólgu og kaupmáttarrýrnunar til uppbyggingar og kaupmáttaraukningar á grundvelli raunverulegs stöðugleika með þjóðarsáttarsamningunum 1990.


Ég hef víða haldið því fram að líkt og þá stöndum við nú á krossgötum og þurfum í nánu samráði við okkar félagsmenn að velja um leiðir, leita lausna og ákveða hvernig við viljum haga baráttu okkar.


Í grófu dráttum snýst þetta val um annars vegar samstöðu og sameiginlega vinnu okkar, atvinnurekenda og stjórnvalda um skynsamlega stjórn efnahags- og atvinnumála og hins vegar um sundurlyndi og sérhyggju sem einkennir þá leið sem ríkisstjórn og Alþingi hefur valið. Verum minnug þess að þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir þrátt fyrir stjórnmálin en ekki vegna þeirra. Það var fyrst eftir að innihald samninganna hafði verið mótað að ríkisstjórnin var nánast þvinguð til samstarfs. Eins og ég gat um í upphafi var það einlæg von okkar að stöðugleikasáttmálinn yrði það skjól sem marka myndi nýtt upphaf og nýjar forsendur til þess að mæta þeim gífurlegu erfiðleikum sem margir okkar félaga og raunar allt íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. Þær vonir hafa brostið og nú er svo komið góðir félagar að við segjum STOPP – hingað og ekki lengra.


Við segjum stopp við kaupmáttarskerðingu, hingað og ekki lengra. Við viljum launahækkanir sem auka kaupmátt og jafna kjörin!


Við segjum stopp við hrunadansi gengisfellinga og verðhækkana, hingað og ekki lengra. Við viljum áreiðanlegan gjaldmiðil sem launafólk getur byggt sín lífskjör á og hægt er að treysta á!


Við segjum stopp við atvinnuleysi, hingað og ekki lengra. Við viljum þróttmikla atvinnustefnu sem skapar forsendur fyrir auknum tekjum og fjölgun starfa!


Við segjum stopp við uppboðum á heimilum félaga okkar, hingað og ekki lengra. Við viljum skjótvirkar og réttlátar aðgerðir fyrir fjölskyldur í greiðslu- og skuldavanda!


Við segjum stopp við árásum á þá sem minnst mega sín, hingað og ekki lengra! Við krefjumst þess að elli- og örorkulífeyrisþegar og atvinnulausir fái líka umsamdar launahækkanir!


Við segjum stopp við láglaunastefnunni, hingað og ekki lengra! Við viljum efnahags- og atvinnustefnu sem byggir á grænum gildum, þekkingu og hálaunastörfum!


Við segjum stopp við skerðingum á fæðingarorlofi og sérstökum árásum að konum sem starfa í heilbrigðis- og velferðarþjónustunni, hingað og ekki lengra! Við viljum verja þá ávinninga sem náðst hafa í jafnréttisbaráttunni frá Kvennafrídeginum fyrir 35 árum. Við viljum samfélag jafnaðar og jafnréttis kynjanna á öllum sviðum!


Við segjum stopp við eignarnámi lífeyrissparnaðar almenns launafólks, hingað og ekki lengra! Við viljum raunhæf úrræði sem gera það kleyft að afskrifa skuldir þeirra sem verst standa!


Við segjum stopp við mismunun í lífeyrisréttindum, hingað og ekki lengra! Við viljum jöfnun lífeyrisréttinda og jafna aðstöðu launafólks á almennum og opinberum vinnumarkaði!


Við segjum stopp ágætu félagar vegna þess að við höfum nú í tvö ár gert kröfu til þess að endurreisn íslenskt samfélags leiði til þess að virðing og félagslegt- og fjárhagslegt sjálfstæði félagsmanna okkar verði varðveitt. Við höfum sagt að það verði best gert með uppbyggingu arðsamra atvinnuvega, með nýsköpun velferðarkerfisins, gagnrýnu, heiðarlegu og siðferðilegu uppgjöri allra valdastofnana samfélagsins og siðvæðingu atvinnulífsins.


Við höfum krafist þess að stjórnvöld og Alþingi skapi launafólki nauðsynlega ramma og tækifæri til þess að fær leið myndist fyrir breitt og öflugt samstarf til þess að ná þessum markmiðum. Þolinmæði okkar er á þrotum. Við höfum mátt horfa upp á hvert upphlaupið á fætur öðru af hálfu stjórnarflokkanna og ríkisstjórnin hefur í reynd verið í minnihluta varðandi ákvarðanir þó hún njóti stuðnings til þess að sitja áfram í tilgangsleysi sínu.


Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur nýtt sér veikleikanna í samstarfi stjórnarflokkanna og kerfisbundið komið í veg fyrir að ríkisstjórnin komi sínum málum í gegn. Staðreyndin er sú, að stjórnmálamenn hafa kerfisbundið komið í veg fyrir að okkur takist að virkja kosti samráðs og sameiginlegrar sýnar til að vinna þjóðina út úr þeim hremmingum sem þeir sjálfir bera svo mikla ábyrgð á að við erum í.


Við slíkar aðstæður er ekki ólíklegt að til kosninga muni koma fyrr en síðarþví ljóst er að óbreytt ástand og upplausn er ekki líklegt til árangurs.


Það sem stjórnmálamenn og atvinnurekendur verða að gera sér grein fyrir, er að þegar þolinmæði okkar þrýtur er í reynd verið að þvinga fram ákveðið val um hvert skal halds því það sem ekki verður sótt með friði verður sótt með öllum þeim úrræðum sem verkalýðshreyfingin býr yfir. Því getur fylgt mikill herkostnaður en ef okkur er ekki önnur leið fær verður hún farin.


En góðir félagar.


Ég hef djúpa sannfæringu fyrir því að lausnin á vanda okkar félaga, hvort heldur er vegna lækkunar kaupmáttar eða alvarlegum greiðslu- og skuldavanda þeirra, muni á endanum ráðast af því hvort okkur tekst að koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang og auka þannig tekjur og atvinnu þeirra. Þrátt fyrir ágreining við stjórnvöld og brostnar væntingar til samstarfsins, þýðir það ekki að Alþýðusamband Íslands sé þrotið að hugmyndum og vilja til þess að sækja kjarabætur og réttindi fyrir félagsmenn sína. Þvert á móti þá stendur ASÍ föstum fótum og hefur skýra sýn á framtíðina og þau tækifæri sem hún geymir. Þessum ársfundi er ætlað að skerpa þá sýn og víkka og honum er ætlað að ná fram á lýðræðislegan og opin hátt, öllum þeim sjónarmiðum og kröfum sem þið treystið forystu Alþýðusambandsins til þess að sameina alla félagsmenn okkar um í baráttunni við atvinnurekendur og stjórnvöld.


Á formannafundi allra aðildarsamtaka Alþýðusambandsins um miðjan september s.l. ræddum við stöðuna í undirbúningi kjarasamninga sem þá var rétt að byrja. Þessi undirbúningur er ennþá í fullum gangi og of snemmt að draga einhverjar ályktanir enn sem komið er. Ég tel reyndar afar mikilvægt að við tökum okkur góðan tíma til þessa undirbúnings og eyðum miklum tíma í samráð og samræðu við okkar félagsmenn um valkostina, því hvað sem við ákveðum að gera og hvernig sem við tryggjum best árangur í baráttunni, þá er ljóst að það verður að grundvallast á virkri og beinni þátttöku og órofa samstöðu okkar félagsmanna.


Ég hef hér í ávarpi mínu til ykkar nefnt, að við stöndum frammi fyrir erfiðu vali um leiðir og að framferði stjórnmálamanna hefur nú í tvö ár hindrað okkur í að ná tökum á stöðunni. Þetta er því miður ekki ný staða. Ef við lítum á reynslu okkar hreyfingar s.l. áratugi er ljóst að þegar við höfum búið að festu, trúnaði og trausti milli forystumanna á vettvangi stjórnmálanna og samtakanna á vinnumarkaði hefur það lagt grunn að samstarfi sem dugað hefur til þess að leiða þjóðina út úr djúpstæðum vandamálum. Við slíkar aðstæður hafa lífskjör og aðstaða okkar félagsmanna tekið miklum stakkaskiptum til hins betra.


Að sama skapi höfum við einnig reynslu fyrir skelfilegum afleiðingum pólitískrar upplausnar og sundrungar á Alþingi. Slíkt hefur iðulega stefnt lífskjörum og afkomu okkar félaga í hættu. Það er við slíkar aðstæður sem virkilega reynir á samstöðuna innan okkar raða og hreyfingin verður að vera við því búin að nota öll sín vopn af mikilli kænsku og útsjónarsemi til að verja hagsmuni og stöðu félaga okkar, þó herkostnaðurinn geti verið mikill til skemmri tíma litið.


Góðir ársfundargestir.


Stefna okkar er skýr og sókndjörf sýn á framtíð íslensks samfélags og íslensks launafólks. Ég hef einlæga sannfæringu fyrir því að með samstilltu átaki og órofa samstöðu muni okkur takast að verja stöðu félagsmanna okkar og sækja fram. Með því að byggja framtíð okkar á þeim mikla mannauði og auðlindum sem þjóðin býr að, skapa okkur tækifæri til þess að vaxa út úr þessum vanda á grundvelli þeirra grænu gilda sem atvinnu- og umhverfisstefna okkar leggur drög að er það staðföst trú mín að við getum endurheimt fyrri lífskjör okkar og velferð á tiltölulega stuttum tíma. En til þess verðum við að komst út úr eilífum bölmóði og framtakleysi og ýta undir áræðni og staðfestu. Þannig getum við treyst þann grunn sem við getum byggt á góð lífskjör og velferð fyrir alla – til framtíðar.


Það er jafnframt sannfæring mín að sá trúnaðarbrestur sem varð í samskiptum verkalýðshreyfingar og stjórnvalda sé ekki kominn til að vera, það verður einfaldlega að finna leið til að byggja brýr á milli aðila. Höfum það hugfast að verkalýðshreyfingin er varanlegt afl í þessu samfélagi en stjórnvöld hvers tíma eru hverful. Við getum einnig verið alveg viss um það, að stjórnvöldum hefur aldrei tekist og mun aldrei takast að tryggja íslensku efnahags- og atvinnulífi þann stöðugleika og þá framsýni sem þörf er á án samstarfs og samvinnu við samtök launafólks.


Ég bind miklar vonir við þau störf sem unnin verða á þessum ársfundi og er fullviss um að hann mun færa forystu Alþýðusambands Íslands, ykkur og landsmönnum öllum þann efnivið sem duga skal til varnar en ekki síður til sóknar í þágu alþýðu þessa lands.


Með þeim orðum lýsi ég ársfund Alþýðusambands Íslands árið 2010 settan.


Ræðuna má ennfremur nálgast hér.