Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ og samninganefnd ASÍ hafa staðið í ströngu undanfarið í viðræðum um gerð stöðugleikasáttmálans og endurskoðun kjarasamninga og nú þegar samkomulag er í höfn segist hann mjög sáttur við niðurstöðuna miðað við þær aðstæður sem ríkja í þjóðfélaginu. Þetta er sáttmáli um nýja sókn í atvinnumálum. En hvað eru þeir aðilar sem koma að þessum sáttmála í raun að segja með honum?
Með stöðugleikasáttmálanum hefur náðst breið samstaða allra aðila á vinnumarkaði, sveitarfélaga og ríkis um átak til að endurreisa efnahagslífið með fjölþættum aðgerðum. Þetta er yfirlýsing um víðtæka samvinnu við að koma þjóðinni út úr núverandi kreppuástandi. Þessar aðgerðir sem við ætlum að sameinast um, eiga að skapa skilyrði fyrir nýrri sókn í atvinnumálaum og þar með bættum lífsskilyrðum til framtíðar, okkur öllum til heilla. Jafnframt erum við hjá Alþýðusambandinu sérstaklega ánægð með að hafa náð að framlengja okkar kjarasamning sem felur í sér hækkanir fyrir þá tekjulægstu, segir Gylfi.
Nú er búið að vera hálfgert frost í hagkerfinu allt þetta ár, breytist það með undirritun sáttmálans?
Já það er okkar von að með þessum sáttmála og þeim aðgerðum sem þar eru kynntar verði hægt að koma hreyfingu á hjól atvinnulífsins með lækkun vaxta og samkomulagi um að greiða götu stórframkvæmda og leggja grunn að samkomulagi við lífeyrissjóðina um fjármögnun aukinna framkvæmda.
Hvað með erfiða skuldastöðu heimilanna?
,,ASÍ hefur á undanförnum mánuðum lagt mikla áherslu á úrbætur og úrræði fyrir þá sem hafa lent í fjárhagsvanda í kjölfar fjármálakreppunnar. Með þessum sáttmála er sérstök áherslu á að áfram verði unnið að því að bæta stöðu lántakenda gagnvart lánakerfinu og viðbótarúrræði fyrir skuldsett heimili ef með þarf.
Stjórnvöld þurfa að stoppa upp í gríðarlega stórt fjárlagagat á næstu árum og niðurskurður hjá ríkinu því óhjákvæmilegur. Hvar unnust mikilvægustu varnarsigrarnir að þínu mati?
Það er ljóst að þjóðin stendur frammi fyrir mjög alvarlegri í stöðu í fjármálum ríkissjóðs. Það verður að finna leið til að minnka halla ríkissjóðs um 180 milljarða kr. eða um þriðjung af umsvifum ríkisins á næstu 3-4 árum. Með samkomulagi við ríkisstjórnina náðist ákveðin varnarsigur með því að draga verulega úr niðurskurði í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu og þrátt fyrir að ríkistjórnin muni leggja verulegar byrgðar á heimilin í formi skattahækkana tókst okkur að koma í veg fyrir að enn lengra yrði gengið í þá átt með því að fá inn ákveðið þak á þann þátt. Þá tókst okkur að ganga frá samkomulagi um mikilvæga þætti í yfirlýsingu fyrrverandi ríkisstjórnar við gerð kjarasamningana í febrúar 2008, einkum er varða uppbyggingu Starfsendurhæfingarsjóðs og framlög til fullorðinsfræðslu, sagði Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ að lokum.