Ný spá hagdeildar ASÍ gerir ráð fyrir hægfara bata

Forseti ASÍ segir verkalýðshreyfinguna standa frammi fyrir erfiðu vali
21/10/2010
Ályktanir ársfundar ASÍ
25/10/2010
Sýna allt

Ný spá hagdeildar ASÍ gerir ráð fyrir hægfara bata

Hin djúpa lægð sem lagðist yfir íslenskt efnahagslíf í kjölfar hruns bankakerfisins á haustdögum 2008 hefur nú náð botni sínum og framundan eru ár hægfara endurbata og vaxtar. Á síðustu tveimur árum hefur ein króna af hverjum tíu horfið úr verðmætasköpun þjóðarinnar. Verkefni næstu ára verður að stækka þjóðarkökuna til þess að bæta megi hér lífskjör á ný. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri spá hagdeildar ASÍ um horfur í efnahagsmálum á árunum 2010-2013.


Hagdeildin spáir tæplega 4% samdrætti í landsframleiðslu á þessu ári en þá taki við tveggja ára hægur vöxtur. Á næstu árum munu ráðstöfunartekjur aukast lítið og atvinnuástandið verður erfitt. Hægt mun draga úr atvinnuleysi sem gert er ráð fyrir að komið verði niður undir 6% á árinu 2013.


Verðbólga verður hófleg, um eða innan við 2% næstu árin og vextir fara lækkandi þó Seðlabankinn muni áfram beita aðhaldssamri peningastefnu. Gert er ráð fyrir að gjaldeyrishöftum verði létt í áföngum næstu misserin.


Vegna óvissu um áframhaldandi framkvæmdir við álver í Helguvík er ekki gert ráð fyrir þeim né orkuframkvæmdum þeim tengdum í spá hagdeildar. Takist hins vegar að nýta þau tækifæri sem þar liggja til að skapa ný störf og aukin verðmæti myndi hagvöxtur næsta árs nær tvöfaldast og atvinnulausum fækka um 1.300 manns auk þess sem betri skilyrði sköpuðust fyrir styrkingu krónunnar.


Hagspá ASÍ má nálgast hér.