Opnuð hefur verið sérstök vefsíða með upplýsingum um nám og ráðgjöf fyrir atvinnulausa, http://www.menntatorg.is/. Vefsíðan er í umsjón Fræðslumiðstöðvar atvinulífsins og er afrakstur vinnu samstarfshóps um menntunarúrræði sem tók til starfa á haustmánuðum 2008. Við hrun íslensku bankanna þótti þegar ljóst að íslenskt samfélag myndi ganga í gegnum miklar hremmingar með meira atvinnuleysi en nokkru sinni áður. Því ákvað stjórn Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) að setja af stað samstarfshóp um menntunarúrræði.
Fulltrúar ASÍ, SA, Vinnumálastofnunar, menntamálaráðuneytis, Starfsmenntaráðs, fræðsluaðila og fræðslusjóða eiga sæti í samstarfshópnum.
Meginhlutverk samstarfs um menntunarúrræði eru:
·að fylgjast með breytingum og það sem gert er til að bregðast við þeim.
·að huga að hvar og hvernig eigi að bjóða og beita úrræðum sem þegar eru til, meðal annars ráðgjöf, raunfærnimati og námi.
·að bæta við úrræðum fyrir einstaka hópa og huga að breyttri forgangsröðun í þeim málefnum sem geta komið markhópnum til góða.
Í markhópi FA eru þau sem hafa stutta formlega menntun. Samstarfshópurinn mun reyna að kortleggja og finna menntunarúrræði fyrir þau sem eru í markhópnum og verða atvinnulaus. Þessi úrræði eru mjög mikilvæg til að bregðast við erfiðri stöðu einstaklinga þannig að aðgengileg fullorðinsfræðsla verði valkostur fyrir þau sem minnsta menntun hafa og missa vinnuna í þeim þrengingum sem ganga nú yfir íslenskt efnahagslíf.