Saga félagsins

Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis

Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis er elsta starfandi stéttarfélag á Suðurnesjum.  Það var á haustmánuðum 1929 að verkamenn og sjómenn í Miðneshreppi kölluðu til fundar í þeim tilgangi að stofna með sér félag. Þann 10. október 1929 var stofnfundurinn haldinn í barnaskólahúsinu sem stóð við skólatjörnina. Aðalhvatamaður að stofnun félagsins var þó ekki verkamaður heldur kennarinn Sigurbogi Hjörleifsson. Í fyrstu stjórn voru kjörnir Guðjón Jónsson bóndi, oftast kenndur við Endagerði, Sigurður Ólafsson sjómaður var ritari og Björn Samúelsson gjaldkeri. Á fyrsta árinu gengu 60 manns í félagið.

Lög félagsins voru samþykkt á framhaldsstofnfundi félagsins sem haldinn var 27. október 1929 og telst sá dagur stofndagur félagsins. 1. fundargerð félagsins.  Í lögunum var meðal annars skilgreint takmark félagsins. Eins og gefur að skilja var það að bæta kjör verkalýðsins í Miðneshreppi en einnig setti félagið sér það markmið að ,,stuðla að sjálfstæðri þátttöku bænda í stjórn sveitafélagsins og vinna að hverskonar umbótum sem mega verða til þess að efla hag og velgengni hreppsins í nútíð og framtíð.“ Samkvæmt þessu var félagið ekki einungis verkalýðsfélag heldur einnig almennt hagsmunafélag fyrir hreppsbúa. Þetta ákvæði mun vera tilkomið vegna þess að stærstu atvinnurekendur í hreppnum voru utanbæjarmenn; Haraldur Böðvarsson hafði bækistöð á Akranesi og Loftur Loftsson í Reykjavík.

Verkalýðsfélag Sandgerðis stofnað 27. október 1929
Verkalýðs og sjómannafélag Gerða og Miðneshrepps stofnað 17. maí 1937
Verkalýðs og sjómannafélag Miðneshrepps stofnað 2. janúar 1949

Fyrsti kjarasamningurinn

Í árslok 1930 fór félagið að huga að sínum fyrstu kjarasamningum og naut til þess fulltingis Alþýðusambands Íslands en félagið gekk í sambandið 22. desember 1930. Inngangan í ASÍ gekk ekki átakalaust fyrir sig frekar en í mörgum öðrum verkalýðsfélögum. Atvinnurekendur staðarins skrifuðu undir þessa fyrstu samninga, Loftur þann 29. desember 1930 og Haraldur þann 8. janúar 1931. Tímalaun í dagvinnu voru 1 króna og í eftirvinnu var greidd 1.40 á klukkustund. Þetta var karlakaupið en konur fengu 70 aura á tímann í dagvinnu og eina krónu á tímann í eftirvinnu. Kreppan mikla vofði yfir landsmönnum og næsta ár á eftir náðust ekki samningar fyrr en búið var að lækka helgidagakaup karla og lækka laun kvenna um 10 aura í dagvinnu og um 20 aura í eftirvinnu! Loftur samþykkti samningana en Haraldur hafnaði þeim algjörlega. Félagsmönnum fækkaði umtalsvert og á endanum sagði félagið sig úr ASÍ í nóvember 1932. Næstu ár á eftir átti félagið erfitt uppdráttar og inn á milli lagðist starfsemi þess niður um tíma. Alltaf lifðu þó einhverjar glæður sem blásið var í öðru hvoru þar til tókst að festa félagið í sessi til frambúðar.

Félag til framtíðar

Árið 2020 eru félagsmenn í Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis um 600. Hlutfall sjómanna hefur minnkað þar sem útgerð hefur dregist mikið saman á Suðurnesjum miðað við það sem áður var. Núna er samið á landsvísu en ekki heima í héraði. Félagið stendur vel og góð eining er innan þess. Fundarsókn er misjafnlega góð og allt eftir því hvaða mál brenna heitast á félagsmönnum í hvert skipti.
Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis gerðist stofnaðili að Verkamannasambandinu og á núna aðild að Starfsgreinasambandinu, svo og Sjómannasambandi Íslands. Í gegnum þau samtök er félagið einnig aðili að Alþýðusambandi Íslands.
Frá því kjarasamningar voru gerðir árið 2000 hefur félagið verið í samstarfi við Landsmennt, Sveitamennt og Sjómennt um endur- og símenntun félagsmanna. Greiðsla fyrir námskeið af ýmsum toga er vaxandi þáttur í daglegri starfsemi félagsins, svo og ýmis konar aðstoð og upplýsingagjöf fyrir félagsmenn.

logo_VSFS_150pMerki félagsins

Merki félagsins er mjög lýsandi fyrir uppruna félagsmanna. Þar er samsett úr skóflu verkamannsins og segli sjómannsins og utan um það er stýrishjólið. Hugmyndina að merkinu eiga Baldur G. Matthíasson, Sigurður Margeirsson þáverandi formaður og Grétar Sigurðsson.

Formenn félagsins.

  1. Guðjón Jónsson 1929 – 1930
  2. Arnoddur Jónsson 1930 – 1933
  3. Valdimar Össurarson 1933 – 1936
  4. Hjörtur B. Helgason  1936 –
  5. Karl Bjarnason 1949 – 1949
  6. Páll Ó. Pálsson 1949 – 1953
  7. Maron Björnsson 1953 – 1961
  8. Bjarni Sigurðsson 1961 – 1962
  9. Margeir Sigurðsson 1962 – 1965
  10. Einar Þórarinsson  1965 – 1966
  11. Maron Björnsson  1966 – 1980
  12. Sigurður Margeirsson 1980 – 1983
  13. Baldur G. Matthíasson 1983 – 2008
  14. Magnús Sigfús Magnússon 2008 –

Eignir félagsins

Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis rekur eigin sjúkrasjóð, orlofssjóð og félagssjóð. Snemma á áttunda áratugnum var hugmynd um að stofna verkfallsjóð innan félagsins en í staðinn var fyrsta orlofshúsið keypt að Hraunborgum í Grímsnesi sem ber nafnið Sandgerðisvör.
VSFS á nú fjögur orlofshús til útleigu fyrir félagsmenn;

1 að Minni Borgum Grímsnesi
1 að Hraunbrekkum 5 í Húsafelli
1 að Þverlág 10 við Flúðir
1 íbúð að Tjarnarlundi 10d á Akureyri.
Félagið á eigið húsnæði að Miðnestorgi 3 í Sandgerði (Vörðunni).

Starfsmenn félagsins

Formaðurinn er í fullu starfi og einn starfsmaður er í hálfu starfi fyrir félagið.
Formaður: Magnús Sigfús Magnússon 2008-
Starfsmaður: Erla Sigurbjörg Sigursveinsdóttir 1986-