Á fimmta tímanum í gær var skrifað undir samkomulag ASÍ og SA um frestun á endurskoðun kjarasamninga þannig að henni ljúki eigi síðar en fyrir lok júní 2009. Þrátt fyrir frestun er í samkomulaginu ákvæði um að lágmarkslaun hækki í 157 þúsund 1. mars 2009 og önnur ákvæði samninganna koma til framkvæmda, m.a. lenging orlofs. Samningsaðilar telja frestunina mikilvægt framlag til stöðugleika í efnhagslífinu.
Þór Sigfússon formaður SA og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ eftir undirritun samkomulagsins.
Samkomulagi aðila fylgir yfirlýsing með áherslum samningsaðila í tengslum við frestun endurskoðunarinnar. Þar kemur m.a. fram að samningsaðilar telja frestunina mikilvægan þátt í því endurreisnarstarfi sem við blasir en meira þurfi að koma til. Bent er á að á næstu dögum og vikum þurfi að grípa til margvíslegra aðgerða til þess að verja hag heimilanna og fjölga störfum.
Samkomulag ASÍ og SA um frestun kjarasamninga má sjá hér.
Áherslur ASÍ og SA í tengslun við frestun endurskoðunar kjarasamninga má sjá hér.
Niðurstöðu forsendunefndarinnar má sjá hér.
Greinargerð samninganefndar ASÍ vegna frestunar á endurskoðun kjarasamninga má lesa hér.