Á heimasíðu ASÍ kemur fram að á miðstjórnarfundi ASÍ sem haldinn var á miðvikudaginn sl. komu fram miklar áhyggjur af vaxandi greiðsluvanda heimilanna í landinu og var auglýst eftir aðgerðum stjórnvalda í því efni. Að sögn Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ er jafnframt í gangi vinna innan Alþýðusambandsins um mótun frekari tillagna til að létta á greiðsluvanda þeirra heimila sem verst eru sett. Ljóst sé að ýmis úrræði sem nú þegar eru í boði séu of þung í vöfum og einfalda þurfi framkvæmd þeirra.
Miðstjórnin ræddi einnig seinagang stjórnvalda í því sem snýr að framkvæmdum og baráttunni gegn atvinnuleysi. Stöðugleikasáttmálinn sem undirritaður var með viðhöfn í lok júní gerði ráð fyrir ýmsum stórframkvæmdum þar sem lífeyrissjóðirnir væru tilbúnir að koma að fjármögnun. Lítil sem engin undirbúningsvinna virðist í gangi hjá stjórnvöldum vegna þessa. Gylfi segir seinaganginn ámælisverðan þar sem ein helsta forsenda stöðugleikasáttmálans hafi verið að hjólum atvinnulífsins yrði komið af stað og í framhaldinu yrðu vextir lækkaðir og gjaldeyrishöft afnumin í áföngum. Endurskoðun kjarasamninga er 1. nóvember og þá þarf að vera kominn gangur í alla þessa þætti samningsins. Menn verða því að fara láta verkin tala, sagði Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambandsins á heimasíðu ASÍ.