Setning SGS-þings 2009

Atvinnulíf á okkar forsendum!
06/10/2009
Höfum engu að tapa nema hlekkjunum – Ávarp félagsmálaráðherra
08/10/2009
Sýna allt

Setning SGS-þings 2009

Frjálshyggjutilraun síðustu tveggja áratuga hefur fengið sinn dóm. Hún mistókst. Hún mistókst svo herfilega að íslensk þjóð verður áratugi að jafna sig á eftir. Þetta er meðal þess sem Kristján Gunnarsson, formaður SGS sagði í ræðu sinni þegar hann setti þing sambandsins rétt í þessu.


Hann sagði jafnframt að nú þyrfti þjóðstjórn, en ekki þjóðstjórn stjórnmálaflokkanna. “Hið eina rétta þjóðstjórnarmynstur að mínu viti, er að ríkisstjórn á hverjum tíma vinni náið með samtökum launafólks, sveitarfélögum og samtökum atvinnurekenda að því að skapa forsendur til framfara og uppbyggingar. ” Ræða Kristjáns í heild er hér á eftir.

Félagsmálaráðherra, forseti ASÍ, góðir félagar
Ég býð ykkur velkomin til þessa þings Starfsgreinasambands Íslands.


Ótrúlega margt hefur á dagana drifið frá því að við komum síðast saman til þings. Þó eru ekki nema tvö ár liðin.


Á síðasta þingi fórum við fram undir yfirskriftinni “Leiðréttum misréttið”. Þá hafði heldur hallað á ógæfuhliðina varðandi ýmsa hluti í samfélagi okkar, en ég held að engan hafi órað fyrir því sem var framundan. Það leið ekki nema ár frá því að við slitum þinginu, þar til allir bankarnir voru komnir á hausinn – þar með talinn Seðlabankinn, sem var tæknilega gjaldþrota. Heilt hagkerfi hrundi eins og spilaborg.


Þjóðin reis upp og hafi Ísland einhvern tíma rambað á barmi borgarastyrjaldar – þá var það síðastliðið haust. Ríkisstjórn hrökklaðist frá og stjórnmálin hafa verið eins og kraumandi suðupottur allt árið. Ástandið í núverandi ríkisstjórn er þannig að menn taka einn dag í einu.


Frjálshyggjutilraun síðustu tveggja áratuga hefur fengið sinn dóm. Hún mistókst. Hún mistókst svo herfilega að íslensk þjóð verður áratugi að jafna sig á eftir.


Og hver er staðan núna – ári síðar? Hún er skelfileg. Það er sviðin jörð hvert sem litið er. Og ekki eru öll kurl komin til grafar. Svo virðist sem lukkuriddarar frjálshyggjunnar hafi látið greipar sópa í íslensku atvinnulífi. Það eina sem er eftir af fjölskyldusilfrinu – eru lífeyrissjóðirnir. Og þeir eru stórskaðaðir eftir viðskiptin við þetta fólk


Verkalýðshreyfingin hefur í sinni vinnu leitað að lausnum. Við buðumst strax til að færa eignir lífeyrissjóða heim, þannig að þeir fjármunir gætu nýst til að bjarga verðmætum og tryggja atvinnu.


Við lýsum enn yfir vilja okkar til að taka virkan þátt í endurreisninni. Við höfum ítrekað vilja okkar til að taka þátt í að fjármagna atvinnuskapandi verkefni, en það virðist ætla að reynast ráðamönnum erfitt að koma slíkum verkum af stað.


Stundum virðist manni jafnvel sem ráðamenn kjósi að bregða fæti fyrir verkefni sem komin eru vel áleiðis í undirbúningi. Ég nefni í því sambandi stórverkefni í Helguvík og það að ekki var framlengd viljayfirlýsing vegna álvers á Bakka við Húsavík. Því lengur sem það tefst að koma verkefnum af þessu tagi af stað, því lengri og dýpri verður kreppan. Stjórnmálamenn sem standa í veginum þurfa að hugsa sinn gang.


Okkur finnst hluturnir ganga hægt. Það gengur hægt að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Það gengur hægt að koma lögum yfir þá sem telja má víst að hafi framið lögbröt í aðdraganda hrunsins. Og það gengur hægt að taka á alvarlegum vanda heimilanna.


Nú ætla ég ekki að halda því fram að vandamál stjórnmálamannanna séu auðveld viðfangs. Þau eru það ekki. Og við megum ekki vera óþolinmóð. Ég held samt, að það sé ekki ósanngjarnt að halda því fram að hlutirnir hefðu getað gengið hraðar fyrir sig. Sumt að minnsta kosti.


Við sem ekki erum beinir þátttakendur í stjórnmálunum horfum í forundran á aðfarir þingmannanna okkar.


Umræðan um Icesave málið og allar tafirnar á að ganga frá því eru búnar að vera gríðarlega kostnaðarsamar fyrir okkur. Þeim mun lengur sem það dregst að ganga frá málinu, því meiri kostnaður hlýst af. Ég get ekki varist þeirri hugsun að kostnaðurinn sem við berum af töfunum verði okkur dýrkeyptari til lengri tíma en það sem er verið að þrátta um.


Það þarf enginn að halda að mér finnist það ásættanlegt að greiða fyrir steikurnar úr tilraunaeldhúsi frjálshyggjunnar. Mér finnst það satt að segja mjög ógeðfellt – en ég sé samt ekki hvernig í ósköpunum við sem samfélag ætlum að komast undan því að standa við þær skuldbindingar sem íslensku eftirlitsstofnanirnar skoðuðu með blinda auganu. Við getum alveg látið Breta og Hollendinga og þeirra framkomu fara í taugarnar á okkur – en ég held að við eigum að líta okkur nær. Við eigum að segja við okkar stjórnmálamenn – klárið málið og farið að vinna vinnuna ykkar. Á meðan þið karpið um Icesave – sem er að öllum líkindum lægri fjárhæð en það sem þurfti að afskrifa vegna fúsks í Seðlabankanum – þá blæðir atvinnulífinu út.


Fyrir nokkrum mánuðum skrifuðum við undir stöðugleikasáttmála – með ríkisstjórninni, atvinnurekendum, sveitarfélögum og öðrum samtökum launafólks. Mér finnst stundum eins og það eina sem ráðamenn hafa séð í þessum sáttmála sé skuldbinding okkar um að fresta launahækkunum. Þeim virðist algerlega hafa yfirsést hvaða skuldbindingar þeir skrifuðu undir sjálfir.


Rifjum það upp. Þeir skrifuðu undir yfirlýsingar um að grípa til aðgerða – í samvinnu við okkur meðal annars – til að koma hjólum atvinnulífsins á hreyfingu. Ég get ekki betur séð en að stjórnvöld túlki þetta samkomulag með allt öðrum hætti. Mér virðist sem ríkisstjórnin hafi með markvissum aðgerðum reynt að slökkva þá neista sem þó loguðu. Ég er þá bæði að vísa til Bakka og Helguvíkur og fleiri atriða


Það er stundum kallað eftir þjóðstjórn. Það að fjórir eða fimm stjórnmálaflokkar skipti bróðurlega með sér ráðherraembættum í ríkisstjórn er ekki þjóðstjórn í mínum huga. Hið eina rétta þjóðstjórnarmynstur að mínu viti, er að ríkisstjórn á hverjum tíma vinni náið með samtökum launafólks, sveitarfélögum og samtökum atvinnurekenda að því að skapa forsendur til framfara og uppbyggingar.


Deilurnar sem við upplifum á Alþingi um þessar mundir um keisarans skegg leiða til þess að íslenskum heimilum blæðir út. Á meðan við náum ekki að fjölga störfum og draga úr atvinnuleysi, þá versnar staða heimilanna.


Heimilið er grundvöllur hverrar fjölskyldu. Margar fjölskyldur eru í þeirri stöðu að horfa jafnvel upp á að tapa húsnæði sínu. Greiðslubyrði lána hefur vaxið á sama tíma og tekjur hafa dregist saman. Eigið fé venjulegra fjölskyldna í húsnæði brennur því hratt upp. Núverandi ríkisstjórn lofaði því að slá skjaldborg um heimilin í landinu.


Það var þó ekki fyrr en í síðustu viku sem við sáum tillögur sem ætlað er að koma til móts við þá erfiðu stöðu sem mörg heimili eru í. Við vitum raunar ekki hver áhrifin verða, því þær taka ekki gildi fyrr en um næstu mánaðamót.


Ég ætla samt að leyfa mér að afgreiða þær tillögur sem gripið var til í kjölfar hrunsins. Þær virkuðu ekki sem skyldi. Lög um greiðsluaðlögun náðu til fárra – og þeir sem þau náðu til eru bónbjargarfólk eftir meðferðina. Samkvæmt þeim tillögum sem nú hafa verið kynntar er ætlunin að lagfæra þetta, einfalda og flýta allri afgeiðslu og meðhöndlun. Gangi það eftir er það mjög til bóta.


Ég held líka að þær aðgerðir sem ætlunin er að grípa til varðandi lagfæringu á greiðslubyrði húsnæðislána og erlendra lána verði mjög til bóta fyrir ákveðinn hóp. Þær munu hins vegar ekki grípa þann hóp sem verst er settur. Þess vegna segi ég. Þessar ráðstafanir eru skref í rétta átt. Þær munu forða mörgum frá því að komast í vonlausa stöðu, en þær hjálpa ekki þeim sem nú þegar eru í vonlausri eða vonlítilli stöðu. Þessu fólki þarf að hjálpa með umfangsmiklum sértækum aðgerðum – og það þolir enga bið. Ég hvet félagsmálaráðherra – af því að hann er í kallfæri – til að taka myndarlega á þessu verkefni. Velferð og lífshamingja tugþúsunda veltur á því.


Það er mikil ólga í samfélaginu vegna þess misræmis sem virðist milli stöðu almenns launafólks og auðmanna og stjórnenda fjármálafyrirtækja. Á sama tíma og hægt er að ganga að heimilum venjulegs fólks vegna allskonar skuldbindinga sem ekki tengjast húsnæði fjölskyldunnar – þá sleppa auðmennirnir með sín heimili af því að þeir voru með skuldirnar sínar í einkahlutafélögum – og eina veðið voru skuldirnar sjálfar. Og þetta lið heldur áfram að berast á og leika sömu leikina og 2007. Og síðan yppta menn bara öxlum. Svona getur þetta ekki gengið.


Það er nauðsynlegt – ef takast á að koma á einhverri sátt í þessu þjóðfélagi – að tekið verði hart á þeim sem komu þjóðinni í þessa stöðu – af fullkomnu ábyrgðarleysi – reknir áfram af græðginni einni saman.


Góðir félagar.


Ég ætla ekki að halda áfram að vera neikvæður. Eins og ég sagði áðan, hefur verkalýðshreyfingin verið lausnamiðuð í sinni vinnu. Þess vegna leggjum við svo mikið upp úr stefnumótun til framtíðar.


Það er í þeim anda sem við tökum við til umfjöllunar á þessu þingi ýmis mikilvæg mál sem varða íslenskt launafólk miklu. Við munum fjalla um og móta okkur skýra stefnu varðandi matvælaiðnað og landbúnaðarmál. Þar er lögð á það höfuðáhersla að íslenskur landbúnaður sé ein af grunnstoðunum. Hann hefur sérstöðu og hana ber að vernda. Um leið og við verndum sérstöðuna, erum við líka að búa okkur til sóknarfæri. Íslenskar landbúnaðarafurðir eru einstakar og við eigum að gera okkur mat úr því á alþjóðlegum vettvangi.


Á sama hátt og við fjöllum um landbúnað og annan matvælaiðnað, ætlum að gera sjávarútvegi og fiskveiðimálum góð skil á þessu þingi. Þar eru nokkur atriði sem skipta miklu máli. Við viljum höfða til samfélagslegrar ábyrgðar þeirra sem fara með kvótann. “Eign” þeirra – innan gæsalappa – á kvótanum, er tilkomin vegna vinnu alþýðufólks í sjávarplássunum. Án þess ættu þeir ekkert.


Þess vegna bera þeir skyldur gagnvart þeim sem sköpuðu auðinn. Þeir geta ekki valsað um með hann um allan heim og notað í óskylda starfsemi. Þannig hefur það því miður verið í fyrirmyndarríki frjálshyggjunnar. Þannig var það 2007. Það er hluti af skýringunni á því hví fór sem fór.


Við leggjum áherslu á að efla starfsfærni fiskvinnslufólks, með fjölbreyttum úrræðum í endurmenntun og fullorðinsfræðslu. Fræðslusjóðirnir og þær fræðslustofnanir sem tengjast þessum verkefnum hafa svo sannað gildi sitt og við leggjum ríka áherslu á að þessi starfsemi blómstri áfram.


Við hljótum við þessar aðstæður að gera þær kröfur að meira af aflanum sé unnið innanlands. Það er öfugsnúið að flytja út gámafisk í þeim mæli sem nú þekkist við þær aðstæður í atvinnulífi sem við búum við.


Það verður líka að auka verðmæti aflans, með því að styðja við nýsköpun í vinnslu, þannig að við fáum meira fyrir það sem berst á land. Þarna eru gríðarleg sóknarfæri fyrir okkur.


Ég get ekki látið hjá líða að minnast á umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Í mínum huga er hún mikið fagnaðarefni, þótt ég hefði viljað sjá hana verða að veruleika við aðrar aðstæður. Við hefðum átt að vera búin að sækja um fyrir alllöngu. Þá hefðu allir samningar verið okkur hagstæðari – og það er með öllu óvíst að við værum í þeim sporum sem við erum í dag hefðum við borið gæfu til að stíga þetta skref fyrr.


Látum það vera. Starfsgreinasambandið hefur alla tíð talað einum rómi varðandi mögulega aðild okkar að Evrópusambandinu. Ég er sannfærður um að innganga í ESB mun færa okkur ný atvinnutækifæri. Þau munu ekki koma úr tæknivæddum sjávarútvegi og landbúnaði. Þá er ég ekki að segja að við eigum ekki að standa vörð um þessar atvinnugreinar – fjarri því. Við eigum svo sannarlega að gera það og um það snýst meðal annars stefnumótunin á þessu þingi.


Ég legg ríka áherslu á að við vöndum okkur við undirbúning samningaviðræðna við Evrópusambandið og í viðræðunum sjálfum. Það verður að fara fram málefnaleg og ítarleg umræða – það þjónar engum tilgangi að rífast um væntanlegan samning fyrr en hann liggur á borðinu.


Góðir félagar.


Verkalýðshreyfingin stendur á tímamótum. Ég hef alltaf sagt að við eigum að vera óhrædd við að skoða aðferðir og skipulag og við eigum að vera tilbúin til að breyta ef ástæða er til.


Ég er þess fullviss að á næstu tveimur árum munum við upplifa mikla uppstokkun í því umhverfi sem við þekkjum. Þetta gildir ekki bara um okkar samtök hér, heldur einnig Alþýðusambandið í heild. Sú fyrirætlan að Alþýðusamband Íslands sé samband landssambanda hefur ekki gengið eftir. Mér sýnist við heldur hafa færst í áttina frá því markmiði en nær á umliðnum árum.


Starfsgreinasambandið verður að gera sig gildandi í þessari umræðu. Við verðum sjálf að taka hana á okkar vettvangi – og fylgja síðan niðurstöðu okkar inn á svið Alþýðusambandsins. Við eigum að fara í þessa vinnu fordómalaust og án fyrirframgefinnar niðurstöðu.


Við höfum sýnt að við erum fær um að takast á við breyttar aðstæður og taka á skipulagsmálum.  Þegar við stofnuðum Starfsgreinasambandið árið 2000 – þá voru aðildarfélögin 43. Í ár verða þau 19. Ég held að við getum því haldið því fram með nokkuð góðri samvisku að við höfum fylgt þeirri ákvörðun stofnfundarins að stækka einingar og styrkja þær. Félögin eru færri, þau eru stærri og þau eru öflugri.


Starfsgreinasambandið er öflugt samband. Það verður þó að segjast eins og er – og við eigum að horfast í augu við veruleikann – við höfum ekki alltaf gengið nógu vel í takt. Ég leyfi mér líka að halda því fram að þær erjur sem við höfum orðið vitni að innan sambandsins snúast ekki um málefni nema þá að litlu leyti. Þetta eru miklu frekar erjur milli einstaklinga. Við verðum að vanda okkur í samskiptum hvert við annað – það er nóg að þurfa að kljást við mótherjana hinum megin við borðið.


Nýleg könnun sýnir að fáir aðilar í samfélaginu njóta mikils trausts landsmanna. Lögreglan  nýtur trausts ríflega 90 prósenta landsmanna, Háskóli Íslands um 70% og Ríkisútvarpið um 65%. Og hversu margir treysta verkalýðshreyfingunni? Fjórðungur. Einn fjórði hluti landsmanna ber mikið traust til okkar. . Samt er 90% landsmanna þeirrar skoðunar að verkalýshreyfingin sé mikilvæg.


En þriðjungur ber lítið traust til okkar


Í mínum huga er þetta algjörlega óásættanlegt. Við eigum augljóslega að geta gert miklu betur. Í það eigum við að einhenda okkur. Það gerum við samt ekki nema við horfumst í augu við vandamálin og göngum samhent til verks.


Góðir félagar
Eins og flestum ykkar er kunnugt, hafði ég gefið út yfirlýsingar um að ég ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri á þessu þingi. Mörgum ykkar er jafnframt kunnugt, að ég er búinn að skipta um skoðun. Einhverjum kann að finnast það veikleikamerki – en ég er ekki sömu skoðunar. Ég held að það sýni styrk. Ekki minn – heldur styrk Starfsgreinasambandsins.


Undanfarna mánuði hef ég átt frábær samskipti við forystumenn og starfsfólk stéttarfélaga um allt land. Þessi samskipti hafa fært mér heim sanninn um kraftinn. Félög um allt land eru að vinna störf sín af miklum krafti og dugnaði. Ég nefni bara nýjustu dæmin – stórgóðan fund okkar á Ísafirði um ferðaþjónustuna í samstarfi við félaga okkar í Matvís og fleiri og vel heppnaðan borgarafund Öldunnar í Skagafirði í síðustu viku. Þessir fundir – og fjölmargir aðrir um allt land segja mér aðeins eitt: Starfsgreinasambandið iðar af lífi.


Í þessum samskiptum sem ég hef hér lýst, hef ég fundið fyrir miklum stuðningi við að ég gæfi áfram kost á mér sem formaður SGS – þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar mínar.


Svona hvatning frá nánasta samstarfsfólki lætur engan ósnortinn. Hún – og sú staðreynd að ég teldi það ábyrgðarlaust að stíga af skútunni við þær aðstæður sem við blasa – eru helstu ástæður þess að ég hef ákveðið að gefa áfram kost á mér til formennsku í Starfsgreinasambandinu.


Félagar. Í dag og á morgun bíða okkur mikilvæg verkefni. Ég veit að við munum öll leggja okkur fram um að sinna þeim af krafti og með það að leiðarljósi að skila Starfsgreinasambandinu enn sterkara til að takast á við verkefnin framundan.


Annað þing Starfsgreinasambands Íslands er sett.