Setningaræða forseta ASÍ á aukaársfundi sambandsins

Aukaársfundur ASÍ í dag
25/03/2009
Aukaársfundi ASÍ lokið með samþykkt ályktanna
26/03/2009
Sýna allt

Setningaræða forseta ASÍ á aukaársfundi sambandsins

Fjölmenni er á aukaársfundi Alþýðusambandsins sem var settur klukkan 9:30. Í setningaræðu sinni kom Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ víða við. Hann talaði m.a. um mikilvægi þess fyrir íslenska þjóð að ganga til viðræðna við ESB um aðild og hann vill skýrar reglur um gagnsæi, siðferði og trúverðugleika í starfi lífeyrissjóðanna. Slíkar reglur þurfa að ná jafnt til fjárfestingarstefnunnar og viðmiðunarreglna um daglega starfsemi sjóðanna, sagði forsetinn.


Setningarræða Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, á aukaársfundi ASÍ í heild:


Forsætisráðherra, góðir ársfundafulltrúar,


Það er við erfiðar aðstæður sem Alþýðusamband Íslands boðar til þessa aukaársfundar undir yfirskriftinni Hagur, Vinna og Velferð – Endurreisn Íslands á traustum gildum.Við horfum upp á landið okkar í miklum vanda þar sem gjaldmiðilskreppa og hrun heils bankakerfisins setur fjölda heimila og fyrirtækja í meiri vandræði en dæmi eru um í sögu lýðveldisins. Dýpt efnahagslægðarinnar og varanleiki hennar mun að hluta til ráðast af því hversu alvarlegur samdrátturinn verður á alþjóðavísu en einnig og ekki síður af því hvernig brugðist verður við hér innanland bæði með aðgerðum og stefnumörkun.


Á hinum pólitíska vettvangi er umrót og óvissa.Breytingar verða á forystu stærstu stjórnmálaflokkana og meira ber á hefðbundnum yfirboðum en hugmyndum um úrræði. Traust almennings á valdastofnunum og áhrifamönnum í viðskipta- og atvinnulífi er nánast horfið og sátt ekki í augsýn. Ómurinn af ásökunum Viðskiptaráðs og forstjóra stórfyrirtækjanna í garð stjórnvalda á undanförnum árum, um ofvaxinn eftirlitsiðnað, er enn í fersku minni og tillagan um arðsgreiðslur hjá HB-Granda bera ekki vott um breytt viðhorf.



Forsenda sáttar er að mínu mati tvíþætt. Annars vegar að stjórnvöld taki á trúverðugan og réttlátan hátt á þeim sem báru ábyrgð á hruni bankakerfisins en öll aðferðafræði við rannsókn á aðdraganda hrunsins til þessa hefur verið í skötulíki.Hins vegar verða þeir sem bera ábyrgðina bera að biðja þjóðina afsökunar á því að hafa komið henni í þessa stöðu.


Við hljótum að kalla þessa aðila til ábyrgðar og spyrja hvort þeir ætlist virkilega til þess að endurreisn atvinnulífsins eigi sér stað á sama siðspillta grunni og áður? Alþýðusambandið er ekki til viðræðu um slíkt og okkar skilaboð af þessum fundi þurfa að vera mjög skýr. Við ætlumst við til þess að endurreisnin verði byggð á traustum siðferðislegum og samfélagslegum gildum. Ef ekki tekst að finna sáttaflöt á slíkum nótum, er hætta á að reiði almennings brjótist út aftur og aftur og að hér muni ríkja pólitískur og félagslegur óstöðugleiki um ókomin ár. Samhliða er hætt við efnahagslegum óstöðugleika, óróleika á vinnumarkaði og tíðum stjórnarskiptum. Það eru ekki eftirsóknarverðar framtíðahorfur fyrir þjóð í vanda.


En þrátt fyrir reiðina liggja í loftinu miklar væntingar um trúverðuga leiðsögn út úr ógöngunum. Þessum væntingum er m.a.beint að okkur í verkalýðshreyfingunni.Þess er krafist að við tökum þátt í því að skapa grundvöll að breiðri samfélagslegri sátt.Það er gríðarlega mikilvægt að verkalýðshreyfingin standi undir þessum væntingum og beiti öllu sínu afli, reynslu og þekkingu til að móta skýra og raunhæfa framtíðarsýn sem leitt getur þjóðina út úr þessum ógöngum.


Til þess að við getum staðið undir þessari ábyrgð verðum við einnig að horfa í eigin barm og spyrja m.a. hvernig við stóðum að málum í kjölfar bankahrunsins. Afstaða okkar í haust var að aðstoða við slökkvistarfið og gefa stjórnvöldum vinnufrið með það að markmiði að takmarka áhrif hrunsins og verja störfin okkar með því að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Við lögðumst þannig gegn kröfunni um að ríkisstjórnin færi frá og að efnt yrði til kosninga strax á síðasta hausti. Rök okkar voru þau að hætta yrði á pólitískri kreppu og að bið yrði á nauðsynlegum ráðstöfunum til að bjarga fjárhag heimila og fyrirtækja auk þess sem störf myndu glatast.


Þegar í ljós kom að aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru veikburða og handahófskenndar og þeir sem báru ábyrgð á hruninu voru ekki látnir axla hana krafðist ASÍ þess að gerðar yrðu umfangsmiklar breytingar innan ríkisstjórnar, Seðlabanka og Fjármálaeftirlits til þess að freista þess að ríkisstjórnin næði sátt við þjóðina.


Engu af þessu var hrint í framkvæmd og reiðin magnaðist í samfélaginu. Um miðjan janúar var þolinmæði okkar á þrotum og miðstjórn ASÍ krafðist þess að ríkisstjórnin færi frá og að boðað yrði til kosninga. Eftir á að hyggja viðurkenni ég að við gerðum ákveðin mistök í þessu ferli, sem rýrðu ímynd okkar og stöðu gagnvart félagsmönnum og trúlega hefðum við átt að setja ríkisstjórninni stólinn fyrir dyrnar í byrjun desember í stað þess að bíða fram yfir áramót.


Að sama skapi verður hreyfinginn einnig að skoða hlutverk og þátt eigin stofnana í því ástandi sem hér ríkir. Siðferðilegur og fjárhagslegur trúverðugleiki lífeyrissjóðanna skiptir sköpum fyrir vöxt og viðgang lífeyriskerfisins. Enginn vafi er á því að þessi trúverðugleiki hefur beðið álitshnekki sem við verðum að bregðast við.


Lífeyrissjóðirnir eru hluti af umsömdum og kjarasamningsbundnum réttindum og það er þess vegna sem stjórnir þeirra eru kjörnar af stéttarfélögum og atvinnurekendum að jöfnu. Þessir aðilar bera því ríka ábyrgð á allri starfsemi lífeyrissjóðanna og við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að félagsmenn okkar beina sjónum sínum einkum að okkar fulltrúum í stjórnunum þeirra og síður að fulltrúum atvinnurekenda. Það er að mörgu leiti eðlilegt og þess vegna verðum við beita okkur fyrir því að settar verði skýrar reglur um aukið gagnsæi, siðferði og trúverðugleika ístarfi þeirra og liggur slík tillaga frá Lífeyrisnefnd ASÍ fyrir þessum fundi. Slíkar reglur þurfa að ná jafnt til fjárfestingastefnu og daglegrar starfsemi sjóðanna, þ.m.t. til starfskjara, gjafa, risnu og ferðalaga.


Alþýðusambandið hefur í langan tíma talað fyrir nauðsyn þess að mynda breiða sátt um úrlausn þeirra vandamála sem við framan af þessum áratug stefndum í og lentum síðan í s.l. haust. Við höfum lengi varað við því að stefna stjórnvalda og Seðlabanka myndi leiða til kollsteypu í formi mikillar verðbólgu og vaxandi atvinnuleysis vegna hruns á gengi íslensku krónunnar. Nægir hér að vitna til ályktana bæði ársfunda og miðstjórnar, sem og áherslna okkar við gerð kjara-samninga.


Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi valið að hunsa þessi varnaðarorð, höfum við á undanförnum árum lagt áherslu á að búa launafólk undir afleiðingarnar af slíkri kollsteypu. Þetta á bæði við um stefnumótun í einstaka málaflokkum sem og beina samninga við atvinnurekendur og stjórnvöld. Nægir hér að vitna til yfirskrifta ársfunda og kynningarherferða okkar undanfarin ár – Velferð fyrir alla, Atvinna fyrir alla, Góð störf, Traust réttindi, Sterkari saman, Okkar veröld, Einn réttur – ekkert svindl.


Okkur hefur tekist að berja í ýmsa bresti í velferðarkerfi vinnumarkaðarins. Við höfum eflt atvinnuleysisbótakerfið með upptöku tekjutengdra bóta, fengið fram lög um virkar vinnumarkaðsaðgerðir, treyst réttindi og stöðu útlendinga á vinnumarkaði,byggt upp fræðslukerfi fyrir lítið menntað fullorðið fólk á vinnumarkaði með stofnun Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og eflingu símennta-miðstöðvanna um land allt og nú síðast með stofnun Starfsendurhæfingarsjóðs og auknum framlögum til endurhæfingar.


Allt eru þetta atriði sem skila sér nú af fullum þunga og fullyrða má að vegna þessa árangurs séum við betur undir það búin að takast á við ríkjandi aðstæður.


Sem verkalýðshreyfing hljótum við að líta á það sem eitt meginverkefni okkar við þessar aðstæður að tryggja annars vegar fjölgun starfa og uppbyggingu og hins vegar að sporna gegn því að efnahagsþrengingarnar auki á ójöfnuð, félagslega einangrun og að réttindi launafólks á vinnumarkaði veikist.


Fyrir okkur snýst málið því um:


-Markvissar aðgerðir til skemmri tíma til að draga úr áhrifum kreppunnar á hag heimila, fyrirtækja og störfin okkar.


-Aðgerðir til lengri tíma til að koma hér á trúverðugum efnahagslegum stöðugleika sem og verja og efla forsendur norræna velferðarkerfisins.


Ég er sjálfur sannfærður um að lausn á aðsteðjandi kreppu byggir á því að hafa mótaða framtíðarsýn um hvert við viljum stefna og hvers konar samfélagi við viljum búa í. Norræna samfélagsgerðin hefur sýnt styrk sinn í fyrsta fasa þessarar kreppu og verkalýðshreyfingin á að setja sér það sem markmið að þróa nýjar lausnir á þessum grunni. Að sama skapi verðum við að horfast í augu við, að öflugt velferðarkerfi verður aðeins reist á trúverðugum efnahagslegum stöðugleika.


Á ársfundi okkar í október á síðasta ári lögðum við fram umfangsmikla áætlun um hvernig endurheimta mætti stöðugleika og verja kjör launafólks og stöðu heimilanna í landinu. Kjarni þeirrar stefnu var, að eina færa leiðin til að ná tökum á þróun gengis, vaxta og verðlags væri að stefna að aðild að ESB og upptöku evru. Ekki vegna þess að við værum öll orðin eldheitir Evrópusinnar, langt frá því. Heldur vegna þess að efnahagsþrengingarnar krefja okkur um nýjar áherslur og nýjar raunhæfar lausnir sem tryggi efnahagslegan stöðugleika fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Trúverðugleiki um stöðugt gengi, hóflega vexti og lága verðbólgu eru mikilvægar forsendur fyrir því og hraðri og öruggri endurreisn íslensks efnahagslífs og velferðarkerfis.


Á þessu hefur ekki orðið nein breyting og á þessum fundi viljum við endurmeta tillögur okkar og þétta raðir okkar um næstu skref.


Frá því október höfum við nýtt tímann til að rýna í ýmsa þætti Evrópusamvinnunnar, bæði kosti þeirra og galla. Ljóst er að ef Ísland gengur í ESB munu ýmsar reglur sambandsins á sviði atvinnu-, félags- og velferðamála ásamt vinnumarkaðs- og menntamála hafa bein áhrif hér á landi.


Að mörgu leiti er hér um mikilvæg og verðmæt réttindi fyrir launafólk að ræða. Má þar nefna félagsmálastefnu ESB með áherslu á jöfnuð og mannréttindiog ný tækifæri með samþættri stefnu ESB í efnahags-, atvinnu-, félags- og umhverfismálum. Að sama skapi eru einnig fólgnar ógnanir og hættur í aðild að ESB. Mikilvægt er að hafa augastað á þeim og mæta þeim með skilgreindum samningsmarkmiðum og jafnvel skilyrðum. Þannig hefur Atvinnumálanefnd ASÍ lagt til veigamikið veganesti í mótun krafna okkar til ásættanlegrar niðurstöðu í sjávarútvegs-, landbúnaðar- og byggðamálum. Þar er horft fordómalaust og af raunsæi á langtíma hagsmuni launafólks.


Því miður eru miklar líkur á því, að Evrópuumræðan fari enn einu sinni út á hliðarspor í aðdraganda kosninga og greinilegt að stjórnmálaflokkunum er um megn að taka afstöðu til málsins. Þetta er áhyggjuefni, því fátt er mikilvægara við þessar aðstæður og það er óásættanlegt með öllu að þessi pattstaða innan og milli stjórnmálaflokkana komi í veg fyrir að þjóðin fái að taka afstöðu í málinu.


Á ársfundinum í október lögðum við einnig fram ítarlega aðgerðaáætlun um að verja hag heimilanna. Sérstök áhersla var lögð á að koma í veg fyrir að greiðslubyrði húsnæðislána vaxi fólki yfir höfuð. Það er ljóst að eftirfylgni ASÍ í þessum málum hefur skilað mikilvægum árangri. Það er hins vegar mikið áhyggjuefni hvernig bæði stjórnmálaflokkar og sjálfskipaðir bjargvættir hafa afvegaleitt umræðuna um raunhæfar lausnir á vanda heimilanna. Yfirboð um almenna lækkun skulda sem fjármagna á með galdraþulum skapa auðvitað væntingar meðal almennings um það sem vitað er að ekki verður hægt að mæta. Ég vona að fólk láti þetta ekki villa sér sýn, en áhersla okkar hefur verið á aðgerðir sem gera heimilunum kleift að standa undir skuldbindingum sínum þrátt fyrir tímabundna erfiðleika, s.s. með greiðslujöfnun verðtryggðra lána, frestun greiðslna, tímabundinni frystingu eða lengingu lána. Þessi úrræði munu gagnast flestum heimilum sem glíma við erfiðleika um stundarsakir og til lengdar ætlumst við til þess, að landsmenn fái að njóta óverðtryggðra húsnæðislána til langs tíma líkt og launafólk í nágrannalöndum okkar en slíkt byggir á stöðugum og trúverðugum gjaldmiðli.


Það er hins vegar dagljóst að þessi úrræði duga ekki til þess að taka á vanda þeirra heimila sem verst eru stödd. Því höfum við lagt mikla áherslu á greiðsluaðlögun sem nái til allra skulda, þ.m.t. veðskulda vegna íbúðarhúsnæðis. Í því felst að greiðslubyrði skulda er aðlöguð að greiðslugetu skuldara, með endurskipulagningu lána og mögulegri niðurfellingu hluta höfuðstóls. Nú fyrir þinglok stefnir í að lög verði sett um greiðsluaðlögun almennra skulda en óvíst er hvort takist að ná fram lögum um greiðsluaðlögun veðskulda vegna íbúðarhúsnæðis, sem ASÍ hefur barist fyrir frá árinu 1994. Það er með öllu óásættanlegt, heykist Alþingi á því að samþykkja slík lög fyrir þinglok í vor.


Endurskoðun kjarasamninga átti að ljúka fyrir lok febrúar s.l. Samtök Atvinnulífsins höfðu í ljósi alvarlegrar stöðu efnahagslífsins og vaxandi atvinnuleysis tilkynnt að þau treystu sér ekki til þess að standa við launalið kjarasamninganna á þeim dagsetningum sem um var samið. Til að komast hjá uppsögn kjarasamninga óskuðu þau eftir því við ASÍ að umsömdum launahækkunum yrði frestað fram eftir þessu ári og því næsta, en þó þannig að þær komi til framkvæmda fyrri lok samningstímans. Þær launahækkanir sem eftir eru í samningunum frá 17. febrúar eru því langt frá því að vera í hendi og ljóst að háværar raddir eru innan SA fyrir því að atvinnurekendur segi sig frá samningnum áður en til umsaminna kauphækkana kemur en til þess hafa þeir skýran rétt samkvæmt forsenduákvæði kjarasamninga.


Þegar ljóst var að ríkisstjórnin var fallinn og boðað hafði verði til kosninga var erfitt fyrir okkur að ganga til samninga án þess að vita hvað væri í vændum í ríkisfjármálum og hver stefnan í efnahagsmálum yrði. Því lögðum við til að endurskoðuninni yrði frestað til loka júní, þegar ný ríkisstjórn með skýrt umboð gæti tekið þátt í þessum viðræðum og um það myndaðist mjög breið sátt um það innan okkar raða. Jafnframt tókst okkur að tryggja hækkun dagvinnutekju-tryggingarinnar í 157 þús.kr. og að lengra orlof kæmi til framkvæmda þrátt fyrir frestun launahækkana.


Viðfangsefni okkar í við komandi endurskoðun er að verja innihald kjarasamninganna frá 17. febrúar 2008. Komi ekki til framlengingar er hætt við að samningar dragist mjög á langinn og að mikilvæg verðmæti glatast úr samningnum – og eins og fram kom í fréttum í gær er það alls ekkert sjálfgefið að okkur takist að verja kjarasamninginn. Ekki má gleyma því, að ef okkur tekst að verja kjarasamninginn, þó að á seinni dagsetningum sé, munu launataxtar á almennum vinnumarkaði hækka um samtals kr. 20.000 hjá verkafólki og kr. 28.000 hjá iðnaðarmönnum. Þær taxtahækkanir eru mikilvægar þar sem þær styrkja öryggisnetið hjá þeim sem eru á markaðslaunum og er mikil kjarabót fyrir þá sem eru á taxtalaunum. Gangi þetta eftir er líklegt, ef miðað er við verðbólguspár að kaupmáttur lágmarkskauptaxtanna muni hækka um tæp 4% hjá iðnaðarmönnum og rúm 8% hjá verkafólki, á samningstímanum frá febrúar 2008 til nóvember 2010. Takist okkur þetta er það ekki lítill ávinningur og árangur, í ljósi þess að við göngum nú í gegnum mestu efnahagsþrengingar í áratugi.


En hvert skal halda? Hvernig samfélag viljum við? Á hvaða grundvelli viljum við hefja endurreisnina? Hvernig á hið nýja Ísland að vera?


Þegar við höfum verið að rýna í viðhorf okkar og það hvaða gildismat og siðferði við viljum að samfélagið verði byggt á, kemur það ekki á óvart að við staðnæmust við grundvallar gildi og viðhorf norrænu verkalýðshreyfingarinnar. Þau eru og hafa frá upphafi verið:


-Að samfélagið sem heild og stofnanir þess beri hita og þunga af velferðarkerfi sem tryggir öllum góða grunnmenntun, heilbrigðisþjónustu og mannsæmandi afkomu sé og eigi að vera einn af hornsteinum samfélagsins – velferð fyrir alla.


-Að mikilvægt sé að gera sem flestum mögulegt að vera virkir þátttakendur í samfélaginu og á vinnumarkaði. Jafnframt að aðstoða þá sem missa starf sitt vegna breytinga á atvinnuháttum eða vegna annarra ástæðna við að fá annað starf við hæfi – atvinna fyrir alla.


-Að launafólk hafi með sér öflug samtök til að gæta hagsmuna sinna gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum og að réttindi og kjör launafólks á vinnumarkaði eigi að ákvarðast í frjálsumkjarasamningum, jafnframt því sem grundvallarréttindi séu bundin í lög – sterkari saman.


Með þessu viljum við tryggja í senn einstaklingum virka þátttöku í samfélaginu og mannlega reisn, fyrirtækjum og atvinnulífinu á hverjum tíma góða og hæfa starfskrafta og samfélagslega samstöðu og framfarir.


Reynslan sýnir að norræn samfélög sem byggja á velferðarhugsjón verkalýðshreyfingarinnar hafa skapað íbúum sínum mesta almenna velferð og lífsgæði meðal þjóða heims.


Það er engin vafi að norrænu velferðarsamfélögin eru meðal þeirra samfélaga sem eru best búin undir framtíðina og ég er sannfærður um að þau munu fyrr og betur ráða við afleiðingar þessarar alheimskreppu. Samfélög sem byggja á öflugu og virku velferðarkerfi, góðri menntun fyrir alla, jöfnuði, jafnrétti kynjanna og traustum réttindum launafólks er einmitt sá grunnur sem byggja þarf á til að takast á við þann mikla vanda sem fylgir afleiðingum fjármálakreppunnar.


Alþýðusambandið er þeirrar skoðunar að margt hafi áunnist með starfi verkalýðshreyfingarinnar á síðustu árum. En þrátt fyrir það er ljóst að enn skortir mikið á að velferðakerfið tryggi öllum þau lífsgæði sem við gerum kröfur til. Alþýðusamband Íslands hefur einsett sér að byggja áfram á þeim árangri sem náðst hefur og vill við þessar aðstæður endurnýja þessi heit sín.


Augljóslega stöndum við frammi fyrir miklum vanda í fjármálum ríkis og sveitarfélaga sem kallar á breytta forgangsröðun. Þjóðin getur ekki haldið áfram að safna skuldum með gríðarlegum hallarekstri því slíkt myndi einungis leiða til vaxandi efnahagslegs óstöðugleika og atvinnubrests. Við verðum því að stilla hlutunum upp og ákveða hvað er okkur er mikilvægast og kærast, hvar við drögum víglínurnar um kjör launafólks.


Grundvallarsýn ASÍ er, að farsæl og varanleg lausn þess mikla vanda sem þjóðin á við að glíma kalli á samstarf og nána samvinnu samtaka launafólks, samtaka atvinnurekenda og stjórnvalda um mótun samþættrar og samofinnar stefnu í efnahags-, atvinnu-, félags- og umhverfismálum. Mikilvægt er fyrir okkur að treysta raðir okkar og efla samstöðuna um þau markmið og þær leiðir sem við leggjum áherslu á.


Munum að afl okkar felst í samstöðunni og til að svo geti orðið verðum við hvert og eitt að leggja okkur fram um að ná henni og viðhalda. Þannig mun Ísland rísa að nýju og þannig munum við tryggja kynslóðum framtíðarinnar þann arf sem forverar okkar í verkalýðshreyfingunni skópu.


Með þessum orðum segi ég þennan aukaársfund settan og óska okkur velfarnaðar í starfi okkar á fundinum.