Skiptar skoðanir um frestun á formannafundi ASÍ

Um kjara- og skattamál – af vettvangi formanna SGS
09/02/2009
Orlofshús VSFS
24/02/2009
Sýna allt

Skiptar skoðanir um frestun á formannafundi ASÍ

Formannafundi ASÍ um beiðni SA um frestun á endurskoðun kjarasamninga til sumars og þar með frestun launahækkana, lauk nú á fimmta tímanum.  Skoðanir voru skiptar en þó virtist góður meirihluti fundarmanna vera fylgjandi frestun vegna þeirrar hrikalegu stöðu sem er í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar.  Endanleg ákvörðun í málinu er nú hjá samninganefnd ASÍ.


Fjörugar umræður sköpuðust á fundinum og voru það einkum formenn nokkurra félaga á landsbyggðinni sem höfnuðu hugmyndinni um frestun.  Þeir vildu launahækkanir 1. mars eins og samningar kvæðu á um.  Þeir sem voru fylgjandi frestun bentu m.a. á að atvinnulífið væri í miklum kröggum og akkúrat núna væri brýnna að verja störfin en kjörin því líklegt væri að hækkun launa á þessum tímapunkti gæti leitt til hagræðingar í formi uppsagna. 


Þegar Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ tók umræður fundarins saman í lokin sagði hann að greinilegur meirihluti fundarmanna væri fylgjandi frestun og það væri vegarnestið sem samninganefnd ASÍ færi af stað með.  Hún tekur loka ákvörðun í þessu máli.