Skipulagsumræða innan Starfsgreinasambandsins

Orlof og orlofsuppbót
18/05/2009
Heimsókn í 10 bekk Grunnskólans í Sandgerði
20/05/2009
Sýna allt

Skipulagsumræða innan Starfsgreinasambandsins

Það liggur fyrir að Flóafélögin innan SGS, þ.e. Efling, Hlíf og VSFK hafa samþykkt að kanna möguleika þess að félögin sameinist í eitt félag. Fyrir því eru meðal annars þau rök að höfuðborgarsvæðið og Suðurnes séu eitt atvinnu- og búsetusvæði og eitt öflugt félag á því svæði sé betur í stakk búið til að gæta hagsmuna félagsmanna og veita góða þjónustu en þrjú félög. Ef sú verður raunin yrði hið nýja Flóafélag með rúmlega helming félagsmanna SGS á sínum snærum eða 55%. Þessi félög hafa ályktað um möguleika þess að félögin, hvert um sig eða saman, sæki um beina aðildi að ASÍ. Til þess þarf að breyta lögum og skipulagi ASÍ.



Eining Iðja við Eyjafjörð er með um 13% félagsmanna SGS og Afl starfsgreinafélag á Austurlandi með um 6%. Önnur minni félög, nú 13 að tölu, svara þá fyrir um fjórðung félagsmanna SGS. Þessi félög öll hafa sannanlega þörf fyrir samráðs- og samstarfsvettvang, bæði sín á milli og með stóru félögunum og öðrum félögum ASÍ, eftir því sem við á, um sameiginleg mál hverrar starfsgreinar fyrir sig. Hvert hlutverk SGS verður í því samhengi og í framtíðinni skal ósagt látið, en umræðan er þörf, sem og umræðan um skipulag, hlutverk og framtíðarsýn verkalýðshreyfingarinnar, sem stöðugt verður að ígrunda og endurmeta. Þá umræðu verður að vanda. Þetta var rætt á fundi framkvæmdastjórnar SGS, sem haldinn var í Vestmannaeyjum dagana 14. og 15. maí s.l. Fram kom að engar endanlegar ákvarðanir liggi fyrir um hvert umræðan leiðir, hún sé á byrjunarreit.