Nú er bleikur mánuður, sem þýðir að athygli er vakin á nauðsyn þess að fara í krabbeinsskoðun. Leghálskrabbamein er annað algengasta krabbamein í heimi hjá konum og tiltölulega algengt meðal ungra kvenna. Það er eitt fárra krabbameina þar sem orsakir eru þekktar en meginorsök leghálskrabbameins er HPVveira sem smitast við kynmök. Flest þessara smita hverfa að sjálfu sér en um 10% geta þróast með tímanum í leghálskrabbamein. Eina leiðin til til að vita hvort þú ert með frumubreytingar í leghálsi af völdum HPVsmits er að mæta reglulega í leit.
Í könnun sem Maskína gerði fyrir Krabbameinsfélagið kom í ljós að aðeins rúmlega helmingur svarenda, af konum á aldrinum 23-40 ára vissu að sum stéttarfélög taka þátt í kostnaði við krabbameinsleit fyrir félagsmenn sína. Jafnframt kom fram í könnuninni að kostnaður við skoðunina var ein af ástæðum þess að konur mættu ekki í leghálskrabbameinsleit. Félagsmenn í Verkalýðs og sjómannafélagi Sandgerðis eru hvattir til að kynna sér reglur sjúkrasjóðs um endurgreiðslu sem þeir eiga rétt á vegna krabbameinsskoðunar.