Um kjara- og skattamál – af vettvangi formanna SGS

ASÍ boðar til aukaársfundar 25. mars
05/02/2009
Skiptar skoðanir um frestun á formannafundi ASÍ
17/02/2009
Sýna allt

Um kjara- og skattamál – af vettvangi formanna SGS

Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins funduðu á fimmtudaginn sl. um efnahagsástandið og stöðu kjaramála auk þess sem ályktað var um hvalveiðar og skattamál. Fundurinn ítrekaði fyrri sjónarmið sambandsins um mikilvægi þess að létta skattbyrði af þeim sem hafa lægri tekjur umfram þá tekjuhærri með því að taka upp tvö skattþrep. Umræðan um efnahagsástandið og stöðu kjaramála var fyrirferðarmest á fundinum, enda kjaraskerðing launafólks mikil frá því fyrir ári, atvinnuleysi skelfilegt og efnahagasástandið í molum.



Gildandi kjarasamningur við Samtök atvinnulífsins gerði ráð fyrir því að í byrjun febrúar skuli fjallað sérstaklega um framlengingu samningsins fyrir tímabilið 1. mars 2009 til 30. nóvember 2010.  Þær umræður eru nú í uppnámi.



Þar sem forsendur samninganna eru brostnar, skal kalla saman fund samninganefndar ASÍ og SA. Verkefni nefndarinnar er að ,,leita samkomulags um viðbrögð til að stuðla að framgangi markmiðs samningsins, festa forsendur hans í sessi og tryggja að samningurinn haldi gildi sínu.“  Það er ljóst að þær aðstæður sem nú eru í samfélaginu setja alla umræðu um framlengingu kjarasamninga í uppnám. Það er vondur kostur að fresta kauphækkunum og það er vondur kostur að vera án kjarasamnings og hefja nýjar kjaraviðræður á óvissutímum meðan beðið er nýrra kosninga og stjórnmálalegs stöðugleika. Kjarasamningar án aðkomu ríkisvaldsins er vondur kostur. Formannafundurinn ræddi þess vegna þann möguleika að samninganefnd ASÍ og SA frestaði fram á sumar viðræðum um mögulegt samkomulag,  ef það yrði til þess að ný ríkisstjórn með umboð eftir nýjar kosningar gæti þá komið að málinu. Miðað við núverandi aðstæður er mikilvægt að stuðla að þríhliða viðræðum ríkis og aðila vinnumarkaðarins um hvert beri að stefna í efnahags- atvinnu- og félagsmálum. Miðstjórn ASÍ hafi í því skyni ákveðið að boða til aukaársfundar ASÍ 25. mars n.k. til að setja fram stefnu sína og sýn varðandi viðreisn hins nýja Íslands.



Fundurinn ræddi einnig hvalveiðar og skattamál. 


Ályktunin um hvalveiðar hefur verið birt hér á vefnum en ályktunin sem samþykkt var samhljóða um skattamál er svohljóðandi:


,,Formannafundur SGS, haldinn 5. febrúar 2009,hvetur til fordómalausrar umræðu um það hvernig gera má tekjuskattskerfi einstaklinga þannig úr garði að það sé sanngjarnt og bitni ekki verst á þeim sem síst skyldi. Fundurinn ítrekar fyrri sjónarmið um mikilvægi þess að létta skattbyrði af þeim sem hafa lægri tekjur umfram þá tekjuhærri. Til þess eru m.a. tvær leiðir færar í skattkerfinu. Annars vegar að hækka skattleysismörk, sem hefur verið talin dýrari leið fyrir ríkið og hins vegar að taka upp tvö skattþrep. Það er sú leið sem Starfsgreinasambandið hefur talið skynsamlega, enda er sú leið víða farin. Formannafundurinn væntir góðs af nýrri ríkisstjórn í þessum efnum