Í kvöldfréttum RÚV sl. sunnudag var fjallað um Starfsendurhæfingarsjóð, hlutverk hans og tilurð. Talað var við Ögmund Jónasson, fyrrum formann BSRB, sem líkti stofnun þessa sjóðs við einkavæðingu og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, stjórnsýslufræðing, sem taldi stofnun Starfsendurhæfingarsjóðs í andstöðu við norræna velferðarkerfið og líkti sjóðnum við vinnumarkaðskerfi Þýskalands og Bandaríkjanna. Vegna þessa ummæla, sem koma nokkuð spánskt fyrir sjónir, er mikilvægt að rifja upp hver var ástæða þess að aðilar vinnumarkaðar ákváðu að fara þessa leið.
Örorka hefur farið vaxandi hér á landi sl. 10 ár án þess að við því hafi verið brugðist að nokkru marki af hálfu stjórnvalda.Og það þrátt fyrir að kostnaður bæði ríkis og lífeyrissjóða vegna þessa vaxi ár frá ári. Ekki svo að skilja að stofnanir ríkisins hafi ekki haft á þessu skoðun og áhyggjur, þvert á móti. Haldnar hafa verið ráðstefnur, m.a. af TR, ASÍ og SA sameiginlega árið 2001, þar sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra var hvattur til að skoða kosti þess að efla til muna starfsendurhæfingu. Nefnd á vegum ráðherra skilaði niðurstöðum í árslok 2004 um rótæka uppstokkun og fjárfestingu í þessum verkefnum, en vegna ágreinings um verkaskiptingu heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytanna um málaflokkinn fékkst skýrsla nefndarinnar ekki birt opinberlega. Né heldur var málið sett í farveg.
Við endurskoðun kjarasamninga ASÍ og SA í nóvember 2005 tók þetta mál nýja stefnu. Samkomulag náðist milli aðila vinnumarkaðarins og þáverandi ríkisstjórnar um uppstokkun á lögunum um atvinnuleysistryggingar og virkar vinnumarkaðsaðgerðir, þar sem Vinnumálastofnun var falin ábyrgð á starfsendurhæfingunni og jafnframt að skipa sérstaka nefnd til að endurskoða aðferðir og alla nálgun varðandi örorkumat. Nýju lögin um vinnumarkaðsaðgerðir tóku gildi í júlí 2006, en ekkert fjármagn var þó sett í virkar vinnumarkaðsaðgerðir. Nefnd um nýtt örorkumat skilaði niðurstöðu í apríl 2007, þar sem breitt samkomulag var útlínur að nýju kerfi, þar sem vinnumarkaðurinn, lífeyrissjóðirnir og stjórnvöld myndu skipta fjármögnun á milli sín.
ASÍ hefur ávalt lagt áherslu á tvennt í umræðunni um starfsendurhæfingu. Annars vegar að tryggt verði nægjanlegt fé til virkrar ráðgjafar, þjónustu sérfræðinga við að skipuleggja endurhæfingaráætlun og úrræði til að hrinda henni í framkvæmd þannig að trúverðugt sé. Hins vegar að verkalýðsfélögin geti með beinum hætti veitt virka þjónustu fyrir sína félagsmenn. Um þetta náðist samkomulag í nefndinni um nýtt örorkumat og gerði þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, þetta að stefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þessi stefna var einnig tekinn upp í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hægar gekk hins vegar að fylla út í þessa ramma, því litlu fé var varið til starfsendurhæfingar og reyndar einnig til virkra vinnumarkaðsaðgerða.
Það er í framangreindu ljósi sem ASÍ og SA ákváðu að ýta málinu af stað með því að semja um stofnun Starfsendurhæfingarsjóðs í febrúar 2008, en samkomulag náðist við ríkisstjórnina um mótframlag á grundvelli niðurstöðu nefndarinnar um örorkumatið. Samið var um að atvinnurekendur greiddu 0,13% í sjóðinn þegar í júní 2008 og síðan átti mótframlag stjórnvalda að koma 2009 og lífeyrisjóðanna 2010. Í framhaldinu komu flest samtök launafólks að sjóðnum, auk ASÍ, svo sem BSRB, BHM og KÍ og skipa þessi samtök fulltrúa launafólks í sjóðnum.
Þegar ljóst var að fjármál ríkissjóðs höfðu hrunið vegna bankakreppunnar höfðu aðilar vinnumarkaðar frumkvæði að því að fresta framlögum ríkissjóðs, fyrst til ársins 2010 en síðar að fullu til ársins 2013 að beiðni ríkisstjórnarinnar en framlagið kemur í áföngum fram til þess tíma. Markmið þessara frestanna er að draga úr áhrifum niðurskurðaráforma ríkisstjórnarinnar á almenning, þó það fresti uppbyggingu þessa mikilvæga verkefnis. Fullyrðingar Ögmundar um að aðilar vinnumarkaðar beri ábyrgð á niðurskurði í heilbrigðiskerfinu eru því úr lausu lofti gripnar. Hitt er merkilegra að Ögmundur er nú þeirrar skoðunar, að velferðarkerfi verkalýðshreyfingarinnar á borð við lífeyrissjóði, sjúkrasjóði og fræðslusjóði sé ekkert annað en dulbúin einkavæðing. Alþýðusambandið er algerlega ósammála Ögmundi um þetta mat hans og man ekki betur en að sá hinn sami hafi talið það meðal sinna mestu afreka að byggja upp og verja lífeyriskerfi opinberra starfsmanna.
Í fyrrgreindri frétt er látið að því liggja að markmið verkalýðshreyfingarinnar með stofnun Starfsendurhæfingarsjóðs sé eitthvað annarlegt að þetta snúist um söfnun og vörslu fjármuna. Það er auðvitað alrangt og ósmekkleg aðdróttun. Að baki býr einfaldlega ósk okkar félagsmanna um að fá raunverulegt tækifæri til að geta snúið aftur til fyrra lífs eftir alvarleg veikindi og slys þar sem verkalýðshreyfingin hefur í samstarfi við viðsemjendur sína tekið frumkvæði að nýjum réttindum.
Varðandi fullyrðingar stjórnsýslufræðingsins um að hér ríki þýskar eða bandarískar aðstæður á vinnumarkaði, þá væri það umræðunni til framdráttar ef fólk kynnti sér aðstæður þar og hér áður en svona fullyrðingar eru settar fram. Staðreyndin er að Ísland er eina ríkið á Norðurlöndunum þar sem launafólk nýtur lögbundinna lágmarkskjara og hér hefur það verið verkalýðshreyfingin sem hefur krafist þess. Óvíða á Norðurlöndunum eru bæði kaup og önnur kjör sem og mikilvæg vinnumarkaðsréttindi eins og atvinnuleysisbætur tryggð fyrir alla á vinnumarkaði. Verkalýðshreyfingin hefur alltaf barist fyrir velferð fyrir alla, þó við höfum viljað ganga lengra með viðbótarréttindum fyrir okkar félagsmenn. Hins vegar hafa stjórnvöld oft og iðulega hirt slík viðbótarréttindi með tekjutengingum, oft króna á móti krónu. Það er því óþolandi þegar þingmaður úr meirihluta á Alþingi brigslar okkur um að vinna gegn þessum markmiðum í sömu vikunni og sú sama ríkisstjórn er að skerða mikilvæg réttindi sem náðst hafa með kjarasamningum og henni hefur verið falin að verja.