Mikil gagnrýni kom fram á þá afstöðu Samtaka atvinnulífsins á formannafundi ASÍ í dag að vilja ekki taka slaginn gegn verðbólgunni með ASÍ. Í viðræðum við SA undanfarnar vikur hefur ASÍ nefnt leiðir til að koma til móts við forsendubrest kjarasamninga en eins og kunnugt er standast forsendur um verðbólgu og gengi krónunnar ekki. Þá hangir forsenda um aukinn kaupmátt á bláþræði.
Til að bregðast við þessu hefur ASÍ komið með hugmyndir um meiri launahækkanir en ráð er fyrir gert þann 1. febrúar nk. eða rautt strik á verðbólgu 1. september. Með rauðu striki myndu stjórnvöld, Seðlabankinn, ASÍ og SA sameiginlega skapa aðstæður til að lækka verðbólgu en rauða strikið miðaðist við að verðbólga væri undir 3% 1. september 2013 ella yrðu samningar lausir.
SA hefur hafnað báðum þessum leiðum og ljóst að atvinnurekendur vilja hafa óbundnar hendur af því að hækka verð á vöru og þjónustu. Allar kostnaðarhækkanir skulu fara beint út í verðlagið með ómældum skaða fyrir launafólk. Það dylst engum að verðbólgan er versti óvinur íslenskra launamanna. Í hárri verðbólgu rýrnar kaupmáttur, skuldir heimilanna hækka og kjör almennings almennt versna til muna.