Verðtrygging persónuafsláttar afnumin rétt einu sinni

Atvinnuleysi í nóvember var 8%
14/12/2009
Dagbækur og pennar til félagsmanna
23/12/2009
Sýna allt

Verðtrygging persónuafsláttar afnumin rétt einu sinni

Í tekjulagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem er til umfjöllunar á Alþingi gefur að líta endanlega útfærslu á þeim tillögum sem oddvitar ríkisstjórnarinnar kynntu nýverið á fyrirhuguðum breytingum á tekjuskattskerfinu. Af þessari kynningu bar hæst áform um að taka upp þriggja þrepa tekjuskattskerfi og er það mikið fagnaðarefni að loksins skuli vera komið stjórnvald sem er umhugað um réttláta tekjuskiptingu. Hitt er alveg með ólíkindum að oddvitar ríkisstjórnarinnar skuli ekki hafa kynnt landsmönnum þau áform sín að afnema þau ákvæði tekjuskattslaganna að persónuafsláttur fylgi verðlagi – að ríkisstjórnin ætli sér að afnema verðtryggingu persónuafsláttar. Að sama skapi kemur það fólki í opna skjöldu að ríkisstjórnin ætli sér einhliða að fella niður sérstaka umsamda 3.000 króna hækkun persónuafsláttar í ársbyrjun 2011, án nokkurs samráðs eða samtals við sinn viðsemjanda. Að mínu viti er hér um grófa rangfærslu að ræða við kynningu á stefnu ríkisstjórnarinnar – það hefði aldeilis verið talið frétt til næsta bæjar ef oddvitar ríkisstjórnarinnar hefðu komið hreint fram og upplýst þjóðina að það væri stefna hennar í skattamálum að afnema verðtryggingu persónuafsláttar og standa ekki við gerða samninga!
Rétt er að rifja upp að ASÍ barðist um árabil fyrir því að tekin yrði aftur upp verðtrygging persónuafsláttar og í júní 2006 tókst að ná þessari kröfu í gegn með samkomulagi við þáverandi ríkisstjórn Geirs H. Haarde og Guðna Ágústssonar í tengslum við endurskoðun kjarasamninga. Að baki þessari kröfu liggur sú staðreynd að frá því að verðtrygging persónuafsláttar var afnumin árið 1990 hafði verðgildi skattleysismarkanna lækkað verulega með sífellt vaxandi skattbyrði á þá tekjulægstu. Að sama skapi samdi ASÍ við ríkisstjórn Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um sérstaka hækkun persónuafsláttar, sem koma myndi til framkvæmda í þremur áföngum 2009, 2010 og 2011. Var þetta hluti af gildandi kjarasamningum til þess að treysta stöðu þeirra tekjulægstu. Það er með ólíkindum að verða vitni að því, að stjórnvöld telja sig ekkert bundin af þeim samningum sem þau gera við verkalýðshreyfinguna.
Í því samráði sem fram fór við undirbúning tekjulagafrumvarps ríkisstjórnarinnar lagði ASÍ áherslu á þrennt. Í fyrsta lagi að tekið yrði upp lægra þrep á lægri tekjur, í öðru lagi að hægt yrði að verja tímabundna frestun á verðtryggingarákvæði persónuafsláttar um ein áramót vegna upptöku lægra skatthlutfalls á lægri tekjur og í þriðja lagi að samkomulag ASÍ við gerð kjarasamninganna í febrúar 2008 um sérstaka 7.000 króna hækkun persónuafsláttar í þremur áföngum héldi gildi sínu. Þó ASÍ hefði viljað hafa lægsta þrepið einu prósentustigi lægra lýstum við því yfir, á grundvelli fréttatilkynningar ríkisstjórnarinnar, að komið hefði verið til móts við kröfur okkar varðandi útfærslu tekjuskattsins, enda hafði ekkert af þessum áformum verið kynntar sérstaklega. Nú hefur komið í ljós, að ríkisstjórnin hafði fyrir löngu ákveðið að taka ekkert tillit til afstöðu ASÍ, brjóta gegn ákvæðum gildandi kjarasamninga og svíkja þar með yfirlýsingar fyrri ríkisstjórna. Það er áleitin spurning fyrir okkur hvaða gildi slíkir samningar hafa.
Langtímaáhrifin af þessari framgöngu ríkisstjórnarinnar er ekki síður alvarleg. Í raun er verið að undirstrika að það sé mjög varasamt fyrir launafólk að treysta á aðkomu stjórnvalda við gerð kjarasamninga – slíkt sé stundarfyrirbrigði sem hafi lítið langtímagildi. Þetta er mikið hættuspor að mínu mati. Með þessu er ekki einungis verið að brjóta áratuga langa hefði fyrir nánu þríhliða samstarfi um mótun og viðhald stöðuleika heldur hitt að áframhaldandi samstarf er sett í uppnám við aðstæður þar sem fyrirsjáanlegt er að það mun einmitt reyna á slíkt samstarf á næstu árum á meðan við glímum við afleiðingar fjármálakreppunnar.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ