Samninganefnd ASÍ ákvað á fundi sínum fyrr í dag (í gær) að slíta þeim viðræðum sem staðið hafa yfir síðustu vikur um mögulegar forsendur fyrir gerð kjarasamninga til allt að 3ja ára. Eins og fram hefur komið gera Samtök atvinnulífsins það að skilyrði kjarasamninga, að niðurstaða fáist í sjávarútvegsmálum áður en gengið verði frá kjarasamningum. Samninganefnd ASÍ er ekki reiðubúin að setjast að viðræðum á þessum forsendum.
Á fundinum var jafnframt farið yfir viðbrögð ríkisstjórnarinnar varðandi þau mál sem Alþýðusamband Íslands hefur sett á oddinn og varða m.a. atvinnumál, jöfnun lífeyrisréttinda, hækkun bóta almannatrygginga og atvinnuleysistrygginga og fyrirkomulag starfsendurhæfingar. Þó ekki sé nein niðurstaða komin í þessi mál hefur það komið fram hjá forsætisráðherra að einlægur vilji sé til þess af hálfu stjórnvalda að setjast að viðræðum við verkalýðshreyfinguna um þessi mál og finna leiðir til að koma til móts við kröfurnar. Jafnframt hefur það komið fram hjá forsætisráðherra að aðkoma ríkisstjórnarinnar miðist við kjarasamning til allt að 3ja ára.
Á samningafundi ASÍ og SA í dag kom skýrt fram að atvinnurekendur vilja ekki einungis tryggja að lausn fáist í sjávarútvegsmálum, heldur nær fyrirvarinn einnig til þess að sú lausn verði SA og LÍU að skapi. ASÍ tekur undir með SA um nauðsyn þess að óvissu verði eytt í sjávarútvegi og að sú vinna verði á grundvelli niðurstöðunnar í sáttanefndinni svokölluðu. Að sama skapi er ljóst að mikil vinna er enn eftir í því máli og mörg álitamál sem leysa þarf í útfærslu. Augljóslega er hér um mjög stór mál að ræða sem varða þjóðina alla og komandi kynslóðir miklu. Það er mat Samninganefndar ASÍ að það sé fordæmalaust að samtök á vinnumarkaði krefjist þess að úr slíkum málum sé leyst með kjarasamningum um kaup og kjör almenns launafólks. ASÍ er ekki tilbúið til þess að láta nota yfirstandandi kjarasamninga og þann þrýsting sem myndast kann á stjórnvöld þegar líður að lokum samningaviðræðna, til þess að gefa atvinnurekendum færi á því að nota efni slíkra kjarasamninga til að þrýsta á um sérhagsmuni LÍU.
ASÍ mun því hætta öllum tilraunum til þess að vinna að gerð kjarasamnings til þriggja ára. Samninganefnd ASÍ hvetur aðildarsamtök sín til þess vinna áfram að gerð kjarasamninga á grundvelli þeirrar kröfugerðar sem þau hafa lagt fram við atvinnurekendur, m.a. um kjarasamning til skamms tíma. Jafnframt má vera ljóst að aðildarsamtök ASÍ munu ekki ljúka kjarasamningi meðan ekki liggur fyrir niðurstaða um hið opinbera framfærsluviðmið sem lofað hefur verið langt skeið og nú fer huldu höfði í velferðarráðuneytinu.
Frétt af vef ASÍ